Það segir ansi margt um stöðuna í ríkisstjórnarsamstarfinu að hvellurinn kringum hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttir mun eflaust gagnast Vinstri grænum vel og skerpa á sérstöðu flokksins gagnvart samstarfsflokkunum. Erkióvinurinn er Kristján Loftsson í Hvalnum, maður sem vinstri menn telja hafa vaðið uppi og lagað reglur að eigin hagsmunum og geðþótta gegnum tíðina.
Vinstri græn hafa verið í sögulegri lægð og við það að mælast út af þingi, flokkur sjálfs forsætisráðherrans. Enda kom glögglega fram á Akranesfundinum í gær, að Svandís varðist fimlega og vissi sem er að fundarmenn myndu fæstir nokkru sinni kjósa hana, en baklandið í borginni væri mjög sátt við gang mála.
Á sama fundi kom berlega í ljós að Bergþór Ólason er öflugasti þingmaður kjördæmisins og sá sem tekur helst upp hanskann fyrir Norðvesturland þegar þarf. Að sama skapi komu í ljós ókostir þess að fyrsti þingmaður kjördæmisins (sem hefði átt að vera þar fremstur í flokki) er utanríkisráðherrann Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, en annir í útlöndum og staða hennar sem varaformanns Sjálfstæðisflokksins kemur í veg fyrir að hún beiti sér af því afli sem tilefnið býður upp á.
Ein þeirra sem spáir í spilin og næstu skref er Karen Kjartansdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Hún skrifar á fésbókina:
„Hvaða skoðun sem fólk hefur á hvalveiðum þá skil ég ómögulega vangaveltur um það hvort málið geti sprengt stjórnarsamstarfið. Ekki sprengir Sjálfstæðisflokkurinn stjórnina á tíma þar sem Samfylkingin mælist með mikið fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með óvenju lítið. Þá má minna á að varla myndi það gagnast hvalveiðum enda hefur Samfylkingin það á stefnuskrá sinni að banna hvalveiðar þótt flokksfólk hafi ekki blandað sér í umræðuna nú. Ekki sé ég nokkuð sem bendir til þess að Framsókn sprengi þessa ríkisstjórn út af þessu máli eða öðru og hvaða ástæðu ætti VG eiginlega að hafa til að slíta samstarfinu út af ákvörðun sem þau tóku sjálf?
Þar fyrir utan myndi enginn nenna að verja sumarfríinu sínu í kosningabaráttu!
Ég er samt frekar ánægð með spönkið í Miðflokknum í kringum þetta mál og fannst Bergþór Ólason stjarna Skagafundarins í gær.“