Kominn tími til að skoða erlendar streymisveitur

Ástæða er til að fagna því að Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hafi skipað þriggja manna starfshóp um gjaldtöku á erlendar streymisveitur.

„Hópnum er ætlað að skoða gjaldtöku á fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni eftir pöntun, sem oft er talað um sem streymisveitur, og hinna svokölluðu erlendu tæknirisa. Innlendir fjölmiðlar hafa kallað eftir því að tekið verði til skoðunar samkeppnisumhverfi innlendra og erlendra fjölmiðlaveitna og þá sérstaklega með tilliti til skattaumhverfis þessara aðila,“ segir í tilkynningu.

Hópinn skipa María Rún Bjarnadóttir (formaður), Heiðdís Lilja Magnúsdóttir fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis og Vilmar Freyr Sævarsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 15. desember næstkomandi.