Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hér er lokaskammturinn kominn.
- Könnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið í kvöld sýnir töluverða færslu fylgis til ríkisstjórnarflokkanna, aðeins örfáum klukkustundum áður en kjörstaðir opna. Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt könnuninni og ríflega það; stjórnarflokkarnir þrír mælast samanlagt með 50 prósent fylgi og fengju 35 þingmenn. „Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,4 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn mælist með 14,9 prósent fylgi og VG er með 12,6 prósent fylgi. Samfylkingin mælist stærst stjórnarandstöðuflokka, er með 12,6 prósent fylgi . Viðreisn mælist með 9,2 prósent fylgi og Píratar eru með 8,8 prósent fylgi. Miðflokkurinn mælist með 6,8 prósent fylgi, Flokkur fólksins með 6,4 prósent fylgi og Sósíalistaflokkurinn mælist með 5,3 prósent,“ segir í frétt RÚV í kvöld.
- Verði þetta niðurstaðan er það miklu betri útkoma fyrir ríkisstjórnina en útlit hefur verið fyrir. En vandinn er sá að ríkisstjórnin er ekki flokkur, heldur þrír flokkar. Stjórnarflokkarnir fengju 35 þingmenn og stjórnarandstöðuflokkarnir 28. Það yrði að teljast starfhæfur meirihluti og Framsóknarflokkurinn einn mesti sigurvegari kosninganna. Hvaða áhrif hefur það? Mun Sigurður Ingi vilja fleiri ráðherrastóla á kostnað VG? Mun Katrín Jakobsdóttir fallast á það?
- Úr Valhöll heyrðust í dag talsverðir taugaskjálftar, þótt enn telji bjartsýnustu menn að flokkurinn hljóti að eiga eitthvað inni miðað við kannanir og hafa líklega rétt fyrir sér. En hvað er nóg til að sleppa fyrir horn og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist? Og er verið að kjósa um framtíð ríkisstjórnarinnar á morgun? Munu Vinstri græn vilja samstarfinu glaðbeitt áfram ef stjórnin heldur tæplega velli? Þetta eru stórar spurningar og ekkert sjálfgefið í þessum efnum.
- Mörgum innan Sjálfstæðisflokksins finnst mörgum líka vitlaust gefið þegar kemur að kosningaumfjöllun Ríkisútvarpsins. Vísar Valhöll meðal annars til þess að heyra hafi mátt á umfjöllun RÚV undanfarnar vikur að allt sé í kalda kolum í velferðarkerfinu, hjá öldruðum og öryrkjum og heilbrigðismál í fullkomnum ólestri. Staðreyndirnar séu þó allt aðrar, enda þótt vissulega megi gera betur. Sömuleiðis hafi ekkert eða varla verið minnst á óþægileg mál fyrir vinstri flokkanna á borð við hlutabréfaeign Kristrúnar Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar, eða hvernig hvernig seðlabankastjóri nánast sló efnahagsstefnu Viðreisnar út af borðinu á dögunum.
- Talandi um útspil Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Hann er óhræddur við að stíga inn í pólitískar umræður sem margir embættismenn hefðu talið jarðsprengjusvæði. Viðskiptablaðið sagði frá ummælum hans á svonefndum Reikningsskiladegi Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) í síðustu viku, þar sem efnahagsstefna Viðreisnar um að festa íslensku krónuna, fékk þá einkunn seðlabankastjóra að vera að einhverju leyti vanhugsuð og gæti kallað á hærri stýrisvexti. „Það er í rauninni ómögulegt fyrir Seðlabankann að halda fastgengi við evru,“ sagði Ásgeir og bætti við að hann þyrfti þá að beita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda fastgenginu. Algjört samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélögin um að heimta ekki meiri launahækkanir en gerist í Evrópu. Einnig yrði ríkisstjórn að byggja fjárlög út frá því að halda jafnvægi á genginu.
- Í stuttu máli sagt var þetta hálfgert rothögg. Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, reyndi þó að halda andliti flokksins og tengja í jörð í grein á Vísi þar sem hann segist fagna ummælum seðlabankastjóra. „Undir orð Ásgeirs ber því að taka. Við, sem þjóð, þurfum að axla ábyrgð á stöðugleikanum, ef við viljum byggja framtíðina á honum. Þetta gerðu nágrannalönd okkar á Norðurlöndum fyrir rúmum tveimur áratugum. Þau endurskoðuðu aðferðafræðina við gerð kjarasamninga með það fyrir augum að styðja við stöðugleika. Árangurinn af þessum breytingum hefur verið mjög góður. Betur hefur gengið að byggja upp kaupmátt og minni gliðnun hefur orðið milli stétta en hér á landi. Höfrungahlaupið sem einkennt hefur íslenskan vinnumarkað hefur því ekki verið til góðs. Að sama skapi einkennast stjórnmál á hinum Norðurlöndunum ekki eins mikið af loforðum fyrir kosningar. Ástæðan er einfaldlega sú að allir flokkar vita að óraunhæf loforð munu á endanum koma í bakið á kjósendum. Þeir velja að sýna ábyrgð. Það mundu íslenskir stjórnmálamenn líka þurfa að gera. Breyting sem þessi krefst samstöðu. Hana þarf að byggja upp. Við munum þó aldrei ljúka því verkefni nema að hefjast handa. Til mikils er að vinna. Framtíðartækifæri íslensks samfélags eru í húfi. Ég er því stoltur af að Viðreisn hafi kjark til þess að leggja í þessa vegferð,“ sagði varaformaðurinn. Vandinn er bara sá, að enginn annar stjórnmálaflokkur hefur tekið undir þessar hugmyndir í kosningabaráttunni, langt er síðan jafn miklu hefur verið lofað af hálfu einstakra flokka í kosningabaráttu og vandséð að Viðreisn geti sett þær sem skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn að kosningunum loknum. Var þetta þá ekki bara rothögg?
- Framboð ársins hlýtur að vera Ábyrg framtíð, sem fór af stað að sögn vegna gífurlegrar óánægju landsmanna með sóttvarnaaðgerðir yfirvalda. Ekki gekk þó vel að safna meðmælendum og var framboð flokksins í Suðurkjördæmi dæmt úr leik þar sem mikið til sama fólkið mælti með framboðinu, skriflega og rafrænt. Í einu kjördæmi, Reykjavík norður, tókst þó að koma saman löglegum lista, en þá ber svo við ap að foringi framboðsins býr ekki þar. Jóhannes Loftsson getur því að sögn RÚV hvorki kosið sjálfan sig né flokk sinn í alþingiskosningunum á morgun þar sem hann býr í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann gerir því ráð fyrir að skila auðu. Svona á að gera þetta.
- Toppuðu sósíalistar of snemma? Könnun Gallup í kvöld sýnir að flokkurinn er rétt yfir fimm prósenta markinu sem gefur jöfnunarsæti. Voru vinstri kjósendur að refsa VG með því að segjast ætla að kjósa Gunnar Smára og félaga í skoðanakönnunum? Munu þeir svo „skila sér heim“ á morgun?
- Miðflokkurinn virðist vera að rétta nokkuð sinn hlut, ef marka má nýjustu kannanir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, segir í bréf til flokksmanna í dag, að flokknum hafi ekki hentað vel að lítið sem ekkert hafi verið rætt um pólitík í eitt og hálft ár hér á landi vegna COVID-19. „Stuðningur við okkur náði hámarki í síðasta mánuðinum fyrir Covid. En í pólitík stjórnar maður ekki alltaf aðstæðum og þá reynir á aðlögunarhæfni Nú sjáum við að með aukinni umræðu um lausnir og framtíðina hefur stuðningur við okkur vaxið á ný. Viðtökurnar sem frambjóðendur hafa fengið um allt land að undanförnu hafa verið gríðarlega mikil hvatning. Mæting á fundi hefur farið fram úr björtustu vonum og óvenju margt nýtt fólk komið til okkar,“ segir hann og bætir við: „Nú, þegar aðeins fáeinar klukkustundir eru í að gengið verði til kosninga langar mig að þakka ykkur fyrir þá miklu vinnu sem þið hafið lagt á ykkur í aðdraganda kosninga og undanfarin ár. Við höfum oft á tíðum verið í andstöðu við flesta eða alla aðra flokka vegna áherslu okkar á að tala og berjast fyrir því sem við teljum rétt óháð sveiflum tíðarandans. Ég veit að það getur oft verið erfitt en flokkurinn samanstendur af einstökum hópi fólks, fólki sem leitar lausna og er tilbúið til að takast á við þær áskoranir sem mæta þeim sem vilja gera breytingar sem skipta máli.“
- Eftir morgundaginn beinist athyglin ef til vill að Bessastöðum. Nema þríeyki Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveði bara á sunnudaginn að halda partýinu áfram, eins og ekkert hafi í skorist. Niðurstaðan er í höndum kjósenda og hvert atkvæði skiptir máli. Viljinn hvetur lesendur sína til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og fara og kjósa. Kosninganóttin verður án efa spennandi.