Kostaboð Pírata (eða þannig)

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talskona Pírata, í Silfrinu. / Skjáskot ruv.is

„Mjög snjall leikur!“ sagði Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og nú fv. alþingismaður Samfylkingarinnar, á fésbókinni í dag eftir útspil talskonu Pírata í Silfrinu í morgun, þar sem hún bauðst fyrir hönd Pírata til að styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar falli.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði í þættinum að málefni ættu að ráða för, en valmöguleikarnir væru fleiri en einfaldlega að núverandi ríkisstjórn haldi áfram í fjögur ár í viðbót. Framsóknarflokkur, Vinstri græn og Samfylking fengu samtals 27 þingmenn og Píratar 6, þannig að samanlagður þingstyrkur slíks minnihlutabandalags með vörn Pírata væri 33 þingmenn, gegn 30 þingmönnum stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins, Viðreisnar og Miðflokksins.

Kannski er ekkert skrítið að fráfarandi þingmanni Samfylkingarinnar þyki hugmyndin snjöll, enda í fyrsta sinn í langan tíma sem nokkur viðrar opinberlega þann möguleika að Samfylkingin fari í ríkisstjórn, en líkurnar á því að forysta Framsóknar og VG stökkvi á tækifærið eru ja, skulum við segja ansi litlar. Eiginlega engar.

Seinni tíma stjórnmálasaga okkar bendir á örlög ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar sem sprakk í loft upp eftir óskiljanlegan næturfund Bjartrar framtíðar. Hverjar eru líkurnar á því að Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson séu til í að eiga líf ríkisstjórnar sinnar undir grasrót Pírata og netkosningum hennar? Þær eru nákvæmlega engar.

Þegar nánar er að gáð, er tilboð Pírata nefnilega lítils eða einskis virði. Stjórnskipulag Pírata er þess eðlis að flokkurinn getur varla tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi. Flatur strúkturinn virkar þannig að ekki væri nóg að mál hefði fengið umfjöllun í ríkisstjórn og þingflokkum flokkanna fjögurra, heldur þyrfti líka að fá samþykki fyrir þeim í grasrót Pírata sem hefði þannig úrslitavald og eiginlegt neitunarvald í stóru sem smáu.

Þetta er meðal annars ástæða þess að Katrín Jakobsdóttir hefur í reynd enga aðra valkosti en halda núverandi samstarfi áfram, viji hún á annað borð að flokkur hennar hafi áhrif og sitji í ríkisstjórn. Stjórnarandstaðan er sundurtætt og gjörólík innbyrðis og enginn valkostur andspænis núverandi ríkisstjórn. Hvorki nú eða fyrir kosningar, eins og berlega kom í ljós…