Reykjavík CrossFit Championship sem haldið var í Laugardalshöllinni um síðustu helgi, þykir hafa tekist einstaklega vel og vakið mikla athygli hér heima og erlendis. Athygli vekur að skipuleggjendur mótsins létu ýmislegt mótlæti ekki á sig fá (eins og gjaldþrot WOW og að styrktaraðilar hafi hætt við) en héldu mótið með glæsibrag, svo miklum raunar að líklegt má telja að það verði fastur liður í íslensku íþróttalífi héðan í frá.
Talið er að um fjögur þúsund manns hafi mætt í Laugardalshöll að fylgjast með afreksfólkinu, þar af um 1.500 útlendingar auk keppnisfólks frá sautján löndum og vakti athygli hve mikið var búið að leggja í umgjörðina; keppnisgólf sem hafði verið sérstaklega byggt og áhorfendapallar sömuleiðis.
Á enga mun hallað þó minnst sé sérstaklega á fjórar manneskjur varðandi hið velheppnaða mót, en það eru þau Snorri Barón Jónsson auglýsingamaður og umboðsmaður íþróttafólks og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir fjárfestir, sem keyrðu undirbúning og framkvæmdina áfram svo eftir var tekið. Auk þeirra léku Hjörtur Grétarsson og Þröstur S. Valgeirsson lykilhlutverk.
Snorri Barón segir frá því á fésbókinni, að það hafi ekki verið neitt sérstaklega heppilegt þegar WOW fór á hausinn „og einhver hundruð útlendinga sem voru búnir að kaupa miða á viðburðinn sátu uppi með flugmiða sem var ekki að fara að koma þeim á leiðarenda. Sérstaklega var frústrerandi hvernig nokkrir tilvonandi kostunaraðilar og samstarfsaðilar hegðuðu sér. Létu eins og þeir ætluðu að vera með, drógu okkur á asnaeyrunum og drógu sig síðan út þegar svo stutt var í land að ógjörningur var að fá aðra í staðinn. Þegar upp er staðið þá er missirinn þeirra því þau misstu af meiriháttar tækifæri sem þeim verður ekki boðið aftur,“ segir hann.
„Það er nefnilega til fullt af fólki sem er reiðubúið til að setja egóið sitt til hliðar, bíta á jaxlinn og vinna linnulaust þar til verkefnið er afstaðið án þess að fara fram á neitt í staðinn. Íslenska Crossfitsamfélagið er magnað og það sýndi mátt sinn og megin um og í aðdraganda helgarinnar. Öll mál sem upp komu voru leyst og þegar lyfta þurfti Grettistaki þá var það gert.
Eftir stendur sú staðreynd að við héldum eina glæsilegustu Crossfitkeppni sem farið hefur fram í sögu íþróttarinnar í heiminum,“ bætir Snorri við.