Páll Bragi Kristjánsson rifjar upp í tilefni niðurstöðu Hæstaréttar í málum Samherja og Seðlabankans, að haustið 2016 hafi Almenna bókafélagið gefið út bókina, Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits, eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing.
„Bókin fjallar um tvö mál, sem Seðlabankinn og gjaldeyriseftirlit hans höfðu uppi fyrir dómstólum við fyrirtækin Aserta og Samherja ásamt forsvarsmönnum þeirra, og hið þriðja gagnvart Úrsusi, þar sem farið var fram með innihaldslausar ásakanir og grófa misneytingu valds. Öll hafa málin valdið miska og miklu tjóni,“ segir Páll Bragi.
Í inngangsorðum bókarinnar ritar höfundurinn m.a. þetta um starfhætti Seðlabankans:
„Hvött áfram af stemningunni í þjóðfélaginu virðist sem valdbeitingin hafi meira átt skylt við krossferðir en stjórnsýslulegt eftirlit og rannsókn.
Í lok bókarinnar segir svo m.a. þetta:
„Af þeim þremur málum sem rakin hafa verið að framan blasir við að Seðlabankinn hefur farið offari við beitingu valds.“
Og:
„Eftirlitsmennirnir í Seðlabankanum réðu ekki við verkefnið. Og það sem verra er – þeir voru eftirlitslausir.“
Páll Bragi segir ennfremur að málatilbúnaður og athæfi Seðlabanka Íslands í öllum þessum málum hafi lent út í mýri, það sé sannleikur, sem taki lyginni fram.
„Hæstiréttur hefur sagt síðasta orðið. Verður svo látið sem ekkert sé?,“ spyr Páll Bragi.