Krötum úthýst úr Samfylkingunni?

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Nú er endanlega komið í ljós, sem hefur verið lítt falið leyndarmál lengi, að andstöðuöfl gegn áframhaldandi þingmennsku Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hafa haft betur. Hann mun hvorki skipa fyrsta né annað sætið á listum flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir komandi kosningar, þrátt fyrir eindreginn vilja þar að lútandi.

Stuðningsmenn Ágústs Ólafs eru reiðir með þessa niðurstöðu og telja brögðum hafa verið beitt. Ekkert hafi verið gert með viðleitni hans til að taka sig á og sækja meðferð við alkóhólisma og algjörlega horft framhjá störfum hans í þinginu eða reynslu hans sem þingmanns til margra ára og varaformanns flokksins um skeið.

„Þetta hefur í reynd legið fyrir lengi. Það stóð aldrei til að bjóða fram lista með Ágústi Ólafi á aftur. Þótt öllum formsatriðum hafi verið fylgt; hann fengið áminningu frá siðanefnd og málinu lokið, var þetta alveg vitað. Það er engin fyrirgefning eða útgönguleið. Það er búið að kalla til fjölda nýrra frambjóðenda og vinstri armurinn og gamli Kvennalistinn hefur endanlega tekið flokkinn yfir,“ segir gamalreyndur Samfylkingarmaður í tölvuskeyti til Viljans, þar sem hann var beðinn um að skýra það sem gerst hefði bak við tjöldin. Sá kemur úr röðum Alþýðuflokksins og segir tíðindin nú undirstrika í eitt skipti fyrir öll að Samfylkingin sé ekki lengur heimavöllur íslenskra krata; Viðreisn hljóti að fagna ógurlega þessari þróun.

Hann bætir því við að með þessu sé Logi Einarsson, formaður flokksins, að gera stór mistök. Flokkurinn hafi beðið hræðilegan ósigur eftir forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur og þurrkast næstum út á Suðvesturhorninu sem frægt var. Smám saman hafi tekist að endurheimta fylgi í könnunum og sækja meira á miðjuna, þar sem fjöldafylgið er og margir enn óákveðnir.

„Og hvað gerist þá? Jú, hófsömum jafnaðarmönnum er ýtt út fyrir vinstra fólk sem jafnvel er nýbúið að kljúfa sig úr Vinstri grænum. Það er lítil ástæða fyrir okkur gömlu kratana að sitja yfir þessu lengur, þetta er bara búið spil,“ bætir hann við.