Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og frambjóðandi Sósíalistaflokksins í komandi kosningum, var ósátt með framgöngu Diljáar Mistar Einarsdóttur, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu um helgina, og vandaði henni ekki kveðjunar á fésbókinni:
„Diljá Mist er ekkert annað en ómerkilegur pólitískur loddari. Ég vona af öllu hjarta að hún og þessi ömurlegi arðráns og spillingarklúbbur sem hún tilheyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, missi þau eitruðu völd sem þau hafa í samfélaginu okkar,“ voru þau ummæli sem formaður Eflingar hafði um mótframbjóðandann.
Sambærileg ummæli hefur Sólveig Anna látið frá sér fara um allskonar nafngreinda aðila í þjóðfélaginu, hvort sem það er fjölmiðlafólk, fulltrúar atvinnurekenda eða stjórnmálamenn. Stóryrði og dylgjur, jafnan farið í manninn.
En Sólveig Anna er líka dugleg að kvarta undan gagnrýni á sín störf og framgöngu. Henni finnst jafnan illa að sér vegið. En stjórnmálamaður og verkalýðsforingi sem jafnan fer í manninn en ekki málefnið getur ekki kvartað undan því að sér sé svarað eða að aðrir séu á annarri skoðun. Jafnvel sósíalistar ættu að vita það.