Nú eru að verða liðnir tveir sólarhringar síðan umræðu um samgönguáætlun var lokið. Enn er ekki búið að greiða atkvæði um hana og samþykkja.
Þetta kemur mjög á óvart, því grátkór ýmissa þingmanna stjórnarmeirihlutans (einkum úr Framsóknarflokknum og Vinstri grænum) kvartaði mjög yfir málþófi Miðflokksins og hélt því fram fullum fetum að þingræður Miðflokksmanna væru að stoppa framkvæmdir, koma í veg fyrir að gröfurnar væru settar í gang landið um kring.
Nú er allt dottið í dúnalogn og engin verk lengur að tefjast vegna þessa.
Enda er andstaða við málið, einkum risavaxin áform um borgarlínu, enn mikil innan Sjálfstæðisflokksins, þótt líklegt sé að lokum að þar verði þingmenn látnir kyngja ælunni, einu sinni sem oftar.
Miðflokksmenn segjast enda hafa fengið meiri viðbrögð innan úr baklandi Sjálfstæðisflokksins vegna andstöðunnar við borgarlínuna en þegar harðast var tekist á um þriðja orkupakkann.
Og er þá mikið sagt.
Hún er skrítin þessi pólitík.