Landlæknir var háður kókaíni er Íslendingar glímdu við spænsku veikina

Guðmundur Björnsson landlæknir, alþingismaður og prófessor.

Guðmundur Björnsson, prófessor í læknisfræði og þingmaður Reykvíkinga um árabil og áður bæjarfulltrúi, var landlæknir á Íslandi frostaveturinn mikla árið 1918 þegar spænska veikin herjaði á heimsbyggðina með hörmulegum afleiðingum sem Íslendingar fóru ekki varhluta af, fremur en aðrar þjóðir.

Guðmundur Magnússon, blaðamaður og rithöfundur, vakti athygli á því í pistli í Morgunblaðinu í vikunni, að Guðmundur Björnsson hefði átt við kókaínfíkn að stríða meðan hann gegndi þingmennsku og gegndi störfum landlæknis og þetta hefði verið alkunna á sínum tíma.

Guðmundur Magnússon rithöfundur.

Á fésbókinni segir rithöfundurinn Guðmundur að traustar heimildir séu fyrir þessari neyslu nafna síns landlæknisins. Samstarfsmaður hans á dögum spænsku veikinnar, Páll V. G. Kolka læknir, hafi staðfest þetta í grein í tímaritinu Andvara, árið 1955.

Í umræddri grein sagði Páll Kolka:

„Það er víst, að hann [Guðmundur Björnson landlæknir] notaði kokain í a. m. k. 12 ár, fyrst sem meðal við kvilla í nefi, síðar hefur hann sennilega gripið til þess af illri þörf í önnum starfs síns, þegar hann varð að neita líkama smum um þráða hvíld. Að lokum hefur þessi nautn orðið honum, sem alltaf hafði einhver áhugaefni á prjónunum, nauðsynleg stundarörvun til afkasta.

Þetta háði heilsu hans nokkuð um tíma, því að hann hafði um árabil meltingarkvilla, en auk þess svæfði það á stundum sjálfsgagnrýni hans, svo að hann varð meiri á lofti en þörf var á. Það er algengt, að menn með meira eða minna dulda vanmetakennd reyni að dylja hana fyrir sjálfum sér og öðrum með mikilmennskulátæði.

Slík uppbót virtist óþörf fyrir slíkan afburðamann sem Guðmundur landlæknir var, en sumir menn setja sér hærra mark en hægt er að ná og eru því rneð sjálfum sér óánægðir með þau afrek, sem öðrum virðist að ættu að endast þeim til fullnægingar.

Páll Kolka læknir.

Það er honum og nokkur afsökun, að á fyrsta tug þessarar aldar þekktu læknar ekki eins og nú þá stórkostlegu hættu, sem felst í því að gefa sig slíkri nautn sem þessari á vald.

En hvað sem þessu líður, þá vann iandlæknir það afrek, sem flestum eða nærfellt öllum mönnum hefði verið um megn, en það var að slíta af sér af eigin ramleik þann gleipni, sem margra ára notkun kokains er.

Sumarið 1920 fór landlæknir í eftirlitsferð kringum land sjóleiðis og hætti í þeirri ferð kokainnotkun fyrir fullt og allt.

Hitt er vart tiltökumál, að stundum sveið svo í hin gömlu sár, að hann varð að grípa til áfengis í bili meira heldur en vel fór á, en hann hóf sig smám saman einnig yfir þá ástríðu.“