Landsbankinn og TM: Kaup- og söluskylda hefur komist á

Kallinn er vinamargur, sem þakkarvert er, og fær margskonar ábendingar úr heimi stjórnmálanna og úr viðskiptalífinu. Eftirfarandi skeyti um kaup Landsbankans á TM Tryggingum beið hans í pósthólfinu þegar tölvan var ræst í morgunsárið og sendandinn gjörkunnugur málum:

„Ég skil ekki hvernig ábyrgir aðilar geta verið á háa C-i með sjónarmið sem eiga sér enga lögfræðilega stoð. Staðan er þessi:

  1. Landsbankinn gerði fyrirvaralaust skuldbindandi tilboð í TM sem var tekið. Kaup- og söluskylda hefur komist á.
  2. LÍ upplýsti Bankasýslu sem kemur fram sem eigandi fyrir hönd ríkisins. Sú skylda er uppfyllt.
  3. Tal um skaðabætur á ekki við. Landsbankinn greiðir ekki skaðabætur, hann greiðir bara kaupverðið. Efndir „in natura” sem kallað er. Einfaldlega uppfyllir kaupsamninginn eftir efni sínu.
  4. Ef ríkisstjórnin (Sjálfstæðisflokkurinn) vill koma fram hefndum gegn Lilju bankastjóra getur bankasýslan sett nýtt fólk í bankaráðið á aðalfundinum sem rekur Lilju og ræður nýjan bankastjóra.
  5. Ef ný forysta Landsbankans vill fylgja línu úr stjórnmálum um að Landsbankinn eigi ekki TM getur bankinn bara selt TM aftur. Öll gögn klár.
  6. Ólíklegt er að almenningur muni verðlauna þau tilþrif með atkvæðum að reka bankastjórann og selja TM. Þvert á móti er auðvelt er að draga upp þá mynd að kaupin á TM séu dauðafæri til að auka verðgildi bankans og tryggingafélagsins. Landsbankinn hefur mikil tækifæri til að nýta og stækka TM með samtvinnun í þjónustu við sína viðskiptavini.
  7. Málinu lokið (Case closed).“