Af dómum Landsréttar í málum Þorsteins Más Baldvinssonar og Samherja gegn Seðlabanka Íslands frá í gær (sjá annars vegar hér og hins vegar hér) verður glögglega ráðið að Seðlabanki Íslands hafði ekki lagastoð fyrir málarekstri sínum gegn Samherja á meintum brotum á gjaldeyrislögum og skilaskyldu og að Ríkissaksóknari ítrekaði fyrir stjórnendum bankans með afgerandi hætti að engin nothæf refsiheimild væri fyrir hendi.
Fyrir flestum eru þessi mál orðin sagnfræði, enda hafa fjölmiðlar flutt fréttir af þeim á öllum stigum í áratug. Allt frá umfjöllun Ríkisútvarpsins, húsleitar hjá Samherja á Akureyri og í Reykjavík, áfellisdómum sem birtust ítrekað frá Umboðsmanni Alþingis og þess að sérstakur saksóknari komst að þeirri niðurstöðu, ekki einu sinni heldur tvisvar, að ekki væri grundvöllur fyrir ákæru í málinu. Stór orð voru látin falla á öllum stigum, en það sem stendur eftir er ekki neitt.
Stjórnvaldssekt bankans á hendur Samherja var felld niður og í Landsrétti í gær voru forstjóra Samherja dæmdar skaðabætur vegna saknæmrar framgöngu Seðlabankans, eins og það er orðað. Athygli vekur hins vegar, að Seðlabankinn var sjálfur sýknaður af skaðabótakröfu Samherja; ekki vegna þess að rétturinn telji bankann ekki hafa brotið af sér, heldur vegna þess að frekar hefði átt að stefna íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta, en ekki bankanum sjálfum.
Þetta síðastnefnda hlýtur að gera að verkum að Samherji láti á það reyna fyrir dómstólum og stefni einfaldlega ríkinu, þar sem niðurstaða Landsréttar er svo skýr og afdráttarlaus. Að málsmeðferð Seðlabankans gegn Samherja hafi verið haldin slíkum annmörkum, að saknæmt verði að teljast. Og bankinn og stjórnendur hans hafi átt að vita betur. Samherji hafi ekki sloppið á einhverjum tæknilegum atriðum, eins og stundum hefur verið haldið fram, heldur hafi alltaf legið fyrir að refsiheimildir hafi ekki legið fyrir og viðskipti fyrirtækisins ekki verið á svig við lög.
Það er eiginlega mögnuð niðurstaða, eftir allt sem á undan er gengið.