Langduglegasti ráðherra ríkisstjórnarinnar

Hægt er að nýta setu í ríkisstjórn með ýmsum hætti. Margir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tórir nú í líknandi meðferð hafa þann sið að tala digurbarkalega og gefa út ítrekað út yfirlýsingar, án þess að nokkur sjáanlegur árangur verði. Hljóð og mynd fara ekki saman, efndir fylgja ekki orðum.

Það þarf ekki að leita lengi til að finna fullyrðingu þessari stað. Innviðaráðherrann stoppar varla við á fundi án þess að ræða stórátak sitt í samgöngumálum, meðan staðreyndin er sú að minna er framkvæmt en áður og allt of lítið en þarf. Sama á við í húsnæðismálunum, þar eru glærukynningar hans og viljayfirlýsingar óteljandi, en algjör húsnæðisskortur samt staðreynd og umtalsverður samdráttur í uppbyggingu á nýju húsnæði.

Félagsmálaráðherrann veit að laga þarf vinnumarkaðslöggjöfina að nútímanum og skýra valdheimildir ríkissáttasemjara. En hann er ákvarðanafælinn, frestar málum og reynir að ýta vandanum á undan sér.

Orkumálaráðherrann kemur pirraður í ræðustól Alþingis og reynir að telja landsmönnum trú um að það sé „allt að gerast í orkumálum“ undir hans stjórn. Allir vita að það er ekki rétt, enda er kallað eftir neyðarlögum vegna orkuskorts til bjargar heimilum og litlum fyrirtækjum.

Útlendingamálin eru svo sérkapítuli út af fyrir sig. Einstaka ráðherrar viðurkenna stjórnleysi í málaflokknum, sumir leggja fram tillögur en ekkert gerist og vandamálið stækkar og stækkar. Á þessu bera stjórnarflokkarnir ábyrgð sem hafa verið við völd í sex ár, sumir lengur.

Lætur verkin tala

Þess vegna er eins og ferskur andblær að fylgjast með framgöngu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólamálaráðherra. Það þurfa ekki að vera sammála henni í pólitík, en fáir geta mótmælt því að hún er langduglegasti ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Það gengur sífellt undan henni, hvaða ráðuneyti sem henni eru falin, og það skiptir máli. Það þarf fleiri stjórnmálamenn með skýrt plan, einhverja sýn á framtíðina.

Síðasta dæmið um framtaksemi yngsta ráðherra ríkisstjórnarinnar er sérstök þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum, sem opnuð hefur verið. Markmiðið er að bæta aðgengi fólks, hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar, að þeim aðilum sem hafa með mat á menntun að gera. Um er að ræða stórt skref til einföldunar fyrir þá sem þurfa á mati að halda því loks geta þeir fengið á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar á menntun eða hæfi. Tilgangurinn með mati getur verið margþættur, s.s. vegna innskráningar í skóla, vegna viðurkenningar á námi vegna launaröðunar, vegna veitingu starfsréttinda sem skilyrði fyrir því að starfa í tiltekinni fagstétt o.s.frv.

Það vantar nefnilega sérfræðinga í öll möguleg störf á Íslandi, ekki bara lækna og heilbrigðisstarfsfólk, en á meðan hafa hálærðir útlendingar unnið í allt öðrum störfum hér á landi, því menntun þeirra hefur ekki fengist viðurkennd og þeir týnst í fargi reglugerða og rauðra strika, mis sýnilegra. Þessu á nú loksins að breyta og þar hefur háskólaráðherrann haft forystu í samstarfi við Stafrænt Ísland og fleiri aðila.

Komast má inn á þjónustugáttina hér.