Létu VG heyra það: Má aldrei gerast aftur að þetta fólk fái að stýra málum okkar

Óhætt er að segja að breiðsíðurnar hafi flogið á fjölsóttu bjórkvöldi hlaðvarpsins Þjóðmála á Kringlukránni í gærkvöldi, þar sem Gísli Freyr Valdórsson spjallaði við þá Stefán Einar Stefánsson á Morgunblaðinu og Hörð Ægisson á Innherja að viðstöddum gestum í sal. Ekki síst kom það í hlut Vinstri grænna að verða skotspónn pallborðsins og voru þar stóru orðin síst spöruð.

Hörð barátta íslensku flugfélaganna kom til umræðu í gærkvöldi, enda berast vondar fréttir af lífróðri Play og jafnvel Icelandair líka þessa dagana í skugga jarðelda á Reykjanesi og lokunar Bláa lónsins. Rætt var um möguleika á að klára kjarasamninga með hagfelldum hætti, hvaða félög væru álitleg á hlutabréfamarkaðinum og hver ekki, auk þess sem brugðist var við fjölmörgum spurningum úr sal.

Stefán Einar las meðal annars upp úr nýrri þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna, sem hann sagði ættaða beint úr Kommúnistaávarp Marx og fælist í upptöku eignaréttarins og yfirtöku vinnuaflsins á atvinnutækjunum. Benti hann svo á Birgi Ármannsson, forseta Alþingis, sem var meðal gesta í sal og sagði alvarlegt mál að hann sæti „í skjóli þessa fólks“ sem þingforseti. „Og þetta skulum við aldrei aftur láta gerast aftur að þetta fólk fái að stýra málum okkar með jafn ömurlegum hætti og til hefur tekist nú,“ sagði hann svo og uppskar dynjandi lófaklapp.

Fjölmargir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru viðstaddir, auk amk eins ráðherra, og eins og glöggt má greina af upptökunni, sem hlýða má á hér að neðan, fékk hörð gagnrýni á Vinstri græn, Landvernd og fjölmarga fleiri aðila hressilegar undirtektir.

„Þau eru reið kjósendum einu sinni til tvisvar í mánuði“

Vont gengi í skoðanakönnunum og áberandi áhrifaleysi flokksins virðist fara sífellt meira í taugarnar á hægri mönnum og umræðan í gærkvöldi minnti sumpart á sjálfshjálpargrúppu fólks sem kemur reglulega saman til að kvarta yfir maka sínum og deila sögum með öðrum, en fer svo aftur alltaf heim til þessa sama maka, eins og ekkert hafi í skorist. Og skilur svo ekkert í því að sagan endurtaki sig.

Það hvarflar að þeim sem eldri eru en tvævetur, að örlítil sjálfsgagnrýni gæti gert Valhöll svolítið gott. Að það geti jafnvel verið eitthvað í starfi og ásýnd flokksins sjálfs sem skýri öfugþróun undanfarinna ára.

Glöggur greinandi sagði þetta um umræður gærkvöldsins og almennan pirring sjálfstæðismanna: „Þau eru reið kjósendum einu sinni til tvisvar í mánuði þegar ný könnun birtist. Alla aðra daga eru þau reið öllum öðrum flokkum.“

Það var og. En heyrn er sögu ríkari…