Leyndarhyggjan breiðist út

Sú ákvörðun stjórnar Leikfélags Reykjavíkur, að birta ekki nöfn þeirra sjö sem sóttu um starf Borgarleikhússtjóra, sem auglýst var til umsóknar þann 16. janúar síðastliðinn, sýnir að fordæmið sem stjórn Ríkisútvarpsins ohf gaf með ráðningarferli nýs útvarpsstjóra, er komið til að vera.

Skilaboðin eru skýr: Almenningi kemur ekki við hverjir sækja um, birting á nöfnum umsækjenda hefur skaðleg áhrif á áhugasama umsækjendur og best er að vinna málin á bak við tjöldin og í kyrrþey, eins og tíðkast í einkafyrirtækjum.

Vandinn er bara sá að opinberir aðilar eru ekki einkafyrirtæki. Borgarleikhúsið er fjármagnað af skattfé rétt eins og Ríkisútvarpið. Þess vegna er algjört lykilatriði, að gagnsæi sé í töku helstu ákvarðana svo við blasi að allir hlutaðeigandi hafi setið við sama borð, en klíkuskapur eða spilling ekki ráðið för.

Þetta er ekki síst mikilvægt nú á tímum, þegar orðið er algengt að greiða þurfi óánægðum umsækjendum stórfé í skaðabætur fyrir að verða ekki fyrir valinu í endanlegri ráðningu hjá opinberum aðilum.

Jón Ólafsson prófessor. / Skjáskot af eirikurjonsson.is

Það er svo kaldhæðnislegra en hægt er að lýsa í fáum orðum, að siðfræðingurinn Jón Ólafsson skuli hafa staðið að ákvörðun stjórnar Ríkisútvarpsins um nafnleyndina. Jón hefur lengi verið í forystu fyrir samtökin Gagnsæi, eins og bent er á á síðu Eiríks Jónssonar, með svofelldum hætti:

Jón Ólafsson prófessor sem situr í stjórn Ríkisútvarpsins á vegum Vinstri grænna lét nýverið af störfum sem stjórnarmaður í Gagnsæi – samtökum gegn spillingu. Hann var engu að síður einn af þeim stjórnarmönnum sem ákvað að halda leynd yfir lista yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra en rök þeirra voru þau að þá myndu fleiri sækja um í ljósi nafnleyndar. Einhverjir vilja ekki láta yfirmenn sína vita að þeir eru á höttunum eftir nýju starfi. Sá sem ráðinn var starfaði fyrir borgina og var með meðmæli yfirmanns síns, Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og hefur því vart þurft að fara leynt. Þeir umsækjendur sem helst myndu hafa komið til greina staðfestu vel flestir umsóknir sínar opinberlega.

Eftir Jóni Ólafssyni prófessor er haft á öðrum vettvangi:

„Djúp spilling er ástandið þar sem valdamiklir hópar í samfélaginu geta stýrt ferlum og ákvörðunum sér í hag, til dæmis með því að sniðganga reglur og markmið sem miða að jöfnuði, sanngirni og réttlátum aðferðum.“