Lilja og Guðni gerðu allt vitlaust: Stöðvuðu lambahryggi á lágum tollum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra/Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra var búinn að gefa munnleg fyrirheit til verslunaraðila um heimild til innflutnings á nýsjálenskum lambahryggjum á lágum tollum á dögunum. Tilkynna átti um málið síðdegis á föstudegi, en Guðna Ágústssyni, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, og Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, tókst að fá því breytt. Krafðist Lilja fundar í ríkisstjórninni vegna málsins, samkvæmt öruggum heimildum Viljans.

Guðni var að koma erlendis frá þegar hann áttaði sig á því hvernig komið var og að til stæði að veita leyfi fyrir innflutningi lambahryggjanna á grundvelli þess að skortur væri á slíku kjöti í landinu. Heimildamenn Viljans segja að landbúnaðarráðherrann fyrrverandi hafi „gert allt vitlaust“ með skilaboðasendingum inn í ríkisstjórnina og sagt berum orðum að komið væri að ögurstund í íslenskum landbúnaði ef farin yrði þessi leið.

Svo fór að Lilja Alfreðsdóttir beitti sér gegn málinu á vettvangi ríkisstjórnarinnar og krafðist þess að ríkisstjórnarfundur yrði haldinn vegna málsins. Ekki var hægt að verða við því samdægurs og fyrir vikið féll landbúnaðarráðherra frá fyrri ákvörðun og tilkynnti svo stuttu síðar af heimild til innflutningsins fengist ekki.

Guðni Ágústsson fv. ráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Herma heimildir Viljans, að Kristján Þór hafi tekið afskiptum menntamálaráðherrans af hans málaflokki mjög illa og málið kunni að hafa pólitískar afleiðingar þótt síðar verði.

Um var að ræða tveggja og þriggja ára frosið lambakjöt frá Nýja Sjálandi, sem flutt hafði verið ríflega sautján þúsund kílómetra yfir hnöttinn og til landsins. Guðni mun hafa bent á að enginn alvöru skortur á kjöti væri til staðar, auk þess sem leikur einn væri að flýta slátrun ef þyrfti.

„Íslenskt lambakjöt er best í heimi,“ er setning sem Guðni hafði oft uppi þegar hann réði landbúnaðarráðuneytinu á sínum tíma. Hann hefur greinilega engu gleymt í þeim efnum.