Logandi vandræði

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar.

Samfylkingin er í logandi vandræðum nú þegar styttist í haustkosningar. Fylgið er í frjálsu falli eftir að hafa verið með allra bærilegasta móti stóran hluta kjörtímabilsins og uppstillingar í einstökum kjördæmum hafa skilið eftir sig djúp sár. Hugmyndafræðin virðist á hraðri leið til vinstri undir forystu Loga Einarssonar og gamlir eðalkratar segja hverjum sem heyra vilja, að þeir geti ekki hugsað sér að kjósa flokkinn við þessar aðstæður.

Ónefndur þingmaður flokksins sagði í samtali við nokkurn hóp fólks á dögunum að þetta væri ekki beinlínis staðan sem lagt hefði verið upp með. Útlit hafi verið fyrir góðan kosningasigur og þess vegna hafi hart verið tekist á um sæti á framboðslistum á bak við tjöldin. Stærsti vandi flokksins sé að mikill hluti flokksmanna líti í reynd fremur til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem leiðtoga síns, fremur en Loga Einarssonar, með allri virðingu fyrir honum. Hann sé hinn mætasti maður.

Sagði þingmaðurinn að fáir innan Samfylkingarinnar trúi því í reynd að Logi geti orðið betri forsætisráðherra en hin vinstri græna Katrín og það sé stórt vandamál þegar styttist í kosningar. Katrín sé í reynd leiðtogi íslenskra jafnaðarmanna og kjósenda til vinstri og hafi persónufylgi langt út fyrir raðir síns flokks. Í kappræðum fyrir kosningar verði þrautin þyngri fyrir Loga að etja kappi við Katrínu en ekki síður forsætisráðherrana fyrrverandi, þá Bjarna Benediktsson, Sigurð Inga Jóhannsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þá eru ótaldir leiðtogar Viðreisnar og Pírata sem sækja sumpart einnig á sömu mið og Samfylkingin.

Það mætti vel kalla þetta Logandi vandræði, sagði þingmaðurinn heldur raunalegur.