Lögfræðingar, sem rýnt hafa í álit Umboðsmanns Alþingis um Samherjamálið, eru á einu máli um að það sé ein samfelld lögfræðileg rassskelling og lögfræðingar Seðlabankans eigi ekki sjö dagana sæla.
Vanalega er Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, afar varfærinn í ályktunum og öllu orðalagi, en í áliti hans um samskipti Samherja og Seðlabankans, kemur skýrt fram að honum finnst sem bankinn og stjórnendur hans hafi gengið fram með ofríki og án lagaheimilda.
Hér er eitt dæmi, en Seðlabankinn hafi vísað til þess í samskiptum við Samherja, að honum hafi lögum samkvæmt borið að afgreiða málefni fyrirtækisins með sambærilegum hætti og aðra sem til rannsóknar voru af hálfu bankans.
Umboðsmaður segir:
Vegna þess sem fram kemur í niðurlagi svars seðlabankans til A um að bankinn hafi gætt jafnræðis við meðferð mála vegna brota á reglum nr. 880/2009 og 370/2010 tel ég ástæðu til að nefna eftirfarandi.
Jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins miðast við að stjórnvöld leysi með sambærilegum hætti úr málum í samræmi við rétta framkvæmd laga. Hafi stjórnvöld í einhverjum tilvikum tekið ákvörðun sem er ekki í samræmi við lög leiða jafnræðisreglur ekki til þess að stjórnvöld verði að viðhafa sömu framkvæmd í tilvikum annarra eða að borgararnir eigi kröfu á því að fá úrlausn í málum sínum í samræmi við ákvörðun sem var ekki í samræmi við lög.
Svo mörg voru þau orð.
Umboðsmaður Alþingis mun koma fyrir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í vikunni og ræða álit sitt. Í framhaldinu verða stjórnendur Seðlabankans kallaðir fyrir nefndina, það er seðlabankastjóri og formaður bankaráðsins. Ráðið vinnur einmitt að því að klára greinargerð sína fyrir forsætisráðherra um málið og hefur ítrekað fengið fresti framlengda til þess að skila.