Lognið á undan storminum?

Ákvörðun um innleiðingu kerfisins var tekin á grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.

Þögn hefur ríkt í herbúðum Samherjamanna undanfarna daga, eftir að starfandi forstjóri sendi starfsfólki fyrirtækisins bréf í síðustu viku til þess að stappa í það stálinu.

En þögnin mun ekki til marks um að stjórnendur þessa stóra fyrirtækis séu einungis að sleikja sárin eftir atlögu undanfarinna vikna, heldur er fullyrt að andrúmsloftið í höfuðstöðvunum sé gjörbreytt eftir því sem rannsókn norsku lögfræðistofunnar Wikborg Rein vindur fram og fleiri og fleiri gögn og tölvupóstar um starfsemina í Afríku undanfarin ár, finnast.

Sagt er að innan fárra daga muni verða birtar upplýsingar sem gjörbreyta þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af málinu hingað til. Björgólfur Jóhannsson hefur bent á, að gríðarlegt magn tölvupósta Jóhannesar Stefánssonar frá Afríkudvöl hans vanti inn í gagnapakkann sem Wikileaks hefur birt og hermt er að í þeim póstum hafi fjölmargt komið í ljós sem passar illa saman við það sem hann hefur haldið fram opinberlega hingað til.

Í stjórnkerfinu segja háttsettir aðilar að fulltrúar Samherja hafi undanfarna daga komið gríðarlegu gagnamagni á framfæri við yfirvöld og vakið sérstaka athygli á mörgu sem þar er að finna.

Veðurfræðingar hafa spáð stormi á landinu á morgun og næstu daga, en víða er nú logn og falleg jólamjöll sem fellur til jarðar. Draga má þá ályktun að í Samherjamálinu ríki nú líka svipað logn á undan storminum sem er í aðsigi.