Lögreglan gerði vel að halda uppi reglu

Af facebooksíðu mótmælenda.

Hælisleitendum sem mótmæla á Austurvelli, ber líkt og öðrum að virða lög, reglur og skipanir lögreglu. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins og fv. utanríkisráðherra í færslu á fésbókinni, en skoðanir eru skiptar um þá atburði er urðu á Austurvelli í gær, þegar skarst í odda með mótmælendum og lögreglu sem beitti piparúða til að ná tökum á ástandinu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt lögregluna fyrir óþarfa ofbeldi og Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, vill taka upp málið í þingnefnd.

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

Gunnar Bragi segir að formaður Samfylkingarinnar stilli sér upp með þeim sem óhlýðnast skipunum lögreglu, „sjálfsagt til að keppa við pírata um athyglina,“ eins og hann orðar það.

„ Lögreglan gerði vel að halda uppi reglu og ber að þakka lögreglumönnunum það,“ segir hann.

Einn af þeim sem taka undir með Gunnari Braga á fésbókinni er Júlíus Hafstein, fv. sendiherra og borgarfulltrúi.

Hann segir:

„Lögreglan á að stjórna og þegar mótmæli eru sett í gang ber að fara eftir ábendingum og ákvörðunum lögreglu. Lögreglan stóð sig vel í þessu verkefni en a m k sumir mótmælendur gengu of langt og fór ekki eftir ábendingum lögreglunnar. Því fór sem fór.“

Vilja fá áheyrn og tækifæri

Í yfirlýsingu sem skipuleggjendur mótmælanna í gær, hafa sent frá sér segir:

„Í gær klukkan 18:33 beitti lögreglan ofbeldi og piparúða gegn óvopnuðu fólki sem mótmælti meðferð flóttamanna í hælisferli á Íslandi. Komum og sýnum að fólk — óháð uppruna og útliti — standi saman gegn ofbeldi!

Piparúðanum var beitt þrátt fyrir að hælisleitendurnir hafi ítrekað sagt að þeirra eina ósk sé að fá áheyrn og tækifæri til að verða partur af samfélaginu — þar með talið að fá efnislega áheyrn mála sinna og rétt til vinnu.

Einu svörin hingað til hafa verið óljós loforð um samtal, auk lögreglukylfunnar og piparúðans.
Sláist með okkur í för og hrópið! Allar manneskjur hafa rétt til lífs! TAKIÐ TJÖLDIN MEÐ, TÓNLISTINA LÍKA, STÖNDUM OG SYNGJUM SAMAN!

—–

Fullur listi yfir kröfur:

  1. Ekki fleiri brottvísanir
    2. Efnismeðferð fyrir alla. Niður með Dyflinnarreglugerðina
    3. Réttur til að vinna
    4. Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu
    5. Lokun einangruðu flóttamannabúðanna á Ásbrú