Það hefur löngum verið vitað að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi vísvitandi tafið gerð Sundabrautar, þótt borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson hafni slíkum málflutningi ákaft. Hin seinni ár hefur ríkisvaldið látið borgaryfirvöld teyma sig á asnaeyrunum, enda þótt gerð Sundabrautar sé forsenda samkomulags ríkis og borgar um samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Bara í síðustu viku kynntu samgönguráðherra og borgarstjóri enn ein tímamótin í sögu Sundabrautar og loforð um að hún verði tekin í gagnið eftir hálfan annan áratug eða svo, en þegar nánar var að gáð er enn eftir að taka allar lykilákvarðanir í málinu og enn veit enginn hvort byggð verður brú eða lögð göng.
Þar með hefur ríkisstjórnin komið meirihlutanum undan því að svara enn einn ganginn erfiðum spurningum um Sundabraut; nú verður svarið gamalkunnugt og á þá leið að allt sé í góðum farvegi, hefðbundu ferli og svo framvegis.
En af því að meirihlutinn í borginni er ekki bara Samfylkingin, keppast borgarfulltrúar hinna flokkanna í meirihlutanum nú við að skerpa á sérstöðu sinni. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, setti þannig athyglisverðar hugleiðingar um Sundabraut á fésbókina, sem segja líklega meiri sannleik um raunverulega stöðu mála en öll fögru fyrirheitin úr Ráðhúsinu gegnum árin samanlagt.
Dóra Björt segir:
„Sundabraut er umferðaraukandi aðgerð sem mun hafa neikvæð áhrif á fjölda hjólreiðaferða og ferða með almenningssamgöngum. Þetta kemur fram í félagshagfæðilegri greiningu á Sundabraut sem var kynnt í borgarráði í vikunni. Í greiningunni eru heildaráhrif á umferð einkabíla og val á ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu ekki tekin inn þegar því er þó haldið fram að framkvæmdin muni minnka losun á CO2 og „leysa umferðarteppur“.
Í dag vitum við að besta leiðin til að auka bílaumferð er að byggja fleiri vegi. Besta leiðin til að leysa umferðarteppur er að fækka bílum. Þetta hefur áratugareynsla sýnt. En hvernig á umferðaraukandi aðgerð að hafa jákvæð áhrif á lífsgæði borgarbúa og þróun borgarinnar? Því hefur ekki verið svarað. Ef við viljum halda fast við okkar nauðsynlegu framtíðarsýn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, breyta ferðavenjum og frelsa fólk frá mengun og ágangi einkabílsins þarf að taka það inn í þessa umræðu um valkosti þegar kemur að Sundabraut. Ef við ætlum á sama tíma að byggja nýjan stofnveg er það deginum ljósara að einhverju verður að breyta á móti.
Sundabraut getur tengt saman Vesturland og Reykjanes með greiðari vöruflutningum og landshlutaferðalögum, en einungis án þess að ganga á lífsgæði Reykvíkinga ef það eru forsendurnar sem við gefum okkur. Það er ekki forsvaranlegt að bæta við stofnvegi inn í Reykjavík án þess að endurhugsa allt vegakerfið frá grunni um leið. Erlendis þekkist að hleypa stofnvegaumferð neðanjarðar í gegnum borgir en halda yfirborðsumferð rólegri á forsendum gangandi og hjólandi.Höfum það á hreinu að Sundabraut með mislægum gatnamótum og einkabílinn í forgrunni mun ein síns liðs án þess að taka inn heildarmyndina á endanum auka losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu og vinna gegn Parísarsáttmálanum, og það að öllum líkindum án þess að leysa þessar umferðarteppur.“
Svo mörg voru þau orð. Mikið var að sannleikurinn um Sundabraut kom loksins fram.