Það er fagnaðarefni að hrópandi þögn ráðherra ríkisstjórnarinnar yfir samdrættinum í efnahagslífinu hafi verið rofin með útspili Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir hún að rkisstjórnin verði að grípa strax til aðgerða til þess að sporna við frekari slaka í hagkerfinu. Útspil þurfi á ýmsum sviðum upp á að minnsta kosti 2% af landsframleiðslu eða 50 milljörðum króna.
Lilja segir að ríkisstjórnin þurfi að koma mörgum stórum verkefnum á framkvæmdastig, þótt það þýði tímabundinn halla á ríkissjóði. Þar megi nefna snjóflóðavarnir, uppbyggingu hafna, lagfæringu raforkukerfisins og opinberar byggingar og nýja þjóðarleikvanga.
Lilja segir að margir deili þessari skoðun með henni og því býst hún við því að breið samstaða náist um aðgerðir af þessu tagi. Hér skal þó fullyrt að forystumenn ríkisstjórnarflokksnna hafi allir hrokkið við yfir morgunverðarborðinu yfir þessu útspili menntamálaráðherrans, sem sannarlega er ekki almennt með efnahagsmálin í víðu samhengi á sínu borði fremur en aðrir fagráðherrar.
En það á bara ekki að skipta neinu máli nú. Það er hárrétt hjá Lilju D. Alfreðsdóttur að niðursveiflan nú er miklu verri en spár höfðu gert ráð fyrir. Það er ekki bara fall WOW og kyrrsetning Max-vélanna hjá Icelandair. Það er líka kórónaveira sem ógnar alþjóðlegum ferðaiðnaði á heimsvísu, amk. um stundarsakir og svo alkul í bankakerfinu vegna samskiptaerfiðleika í Seðlabankanum.
Þess vegna er ástæða til að fagna frumkvæði hennar og taka undir með hugmyndum um stórfellda uppbyggingu innviða, auk þess sem fagna ber sérstaklega tillögum hennar um að lækka tryggingagjald og fasteignagjöld sveitarfélaga.
Meðal annarra orða: Það skyldu þó ekki vera formannskosningar framundan í Framsóknarflokknum?