Einn af fáum frambjóðendum fyrir komandi þingkosningar til að ræða útþenslu ríkisbáknsins og skattahækkunargleði stjórnvalda, er Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Miðflokksins sem skipar 2. sætið á lista flokksins í Kraganum.
Nanna skrifaði á dögunum grein í Morgunblaðið þar sem hún benti á að nútímaþjóðfélög byggist á því, að þegnar borga skatta en fái á móti ýmsa þjónustu, svo sem menntun, heilbrigðisþjónustu, velferðarkerfi að ógleymdum innviðum á borð við vegi, flugvelli og hafnir, löggæslu og almenna stjórnsýslu.
„Flest erum við sammála um að í slíku þjóðfélagi viljum við búa en við höfum misjafna sýn á hvar mörkin liggi milli þess sem er sameiginlegt og þess sem við fáum að ráðstafa hvert og eitt, af eigin sjálfsaflafé.
Áratugum saman ríkti nokkur sátt um hvar þessi mörk lægju, þ.e. hversu mikil sú skattheimta væri sem stjórnmálamenn hvers tíma hefðu til að moða úr á kostnað forræðis fjölskyldna yfir eigin fjáröflun og eignum. Þessu óskrifaða samkomulagi var snarlega rift af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og þegar við bætist skattagleði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er niðurstaðan sú, að við erum í þeirri stöðu að vera í hópi þeirra þjóða sem greiða hæstu skatta. Er aukin skattheimta í samræmi við vilja kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknar? Eru háir skattar leiðin til að fá vel menntað fólk aftur heim til starfa eftir langt nám erlendis?“
Nanna segir að báknið hafi þanist út í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. „Það virðist óseðjandi, stækkar bara og stækkar og ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks bregst við með sífelldum refsisköttum, auknu flækjustigi, boðum og bönnum. Ég vil stemma stigu við óhóflegri skattheimtu, setja „báknið“ á megrunarkúr, lækka beina og óbeina skatta og auka sjálfsákvörðunarrétt íslenskra fjölskyldna yfir sjálfsaflafé og eignum.
Í áratugi bjuggum við Íslendingar við einfalt og auðskiljanlegt skattkerfi, eitt skattþrep og ein skattprósenta á allar tekjur, en skattar á þá tekjulægstu lækkaðir umtalsvert með persónuafslætti. Nú er tekjuskattur þrepaskiptur, þrjú skattþrep eru í kerfinu í dag og flækjustig hefur aukist í samræmi við það. Fæstir geta reiknað út með einföldum hætti hve miklu einstaklingur heldur eftir af launum sínum þegar skatturinn hefur hirt sinn hlut og ekki er minna flækjustigið fyrir fyrirtæki þegar kemur að útgreiðslu launa. Ríkisstjórn Katrínar og Bjarna hefur tekist að flækja skattkerfið til muna til viðbótar við það flækjustig sem Steingrímur innleiddi í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu. Í tíð þeirrar ríkisstjórnar voru innleiddar á annað hundrað breytingar á skattalögum, allar hugsaðar til að auka skattheimtu og gera skattkerfið illskiljanlegra fyrir almenning og fyrirtæki.
Ef viljann skortir gerist lítið
Í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs var byrjað að vinda ofan af ofsköttun en í tíð núverandi ríkisstjórnar virðist viljann skorta til jákvæðra hvata og skattalækkana. Ef viljann skortir gerist lítið.
Fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður um 120% frá því hann var innleiddur, sú hækkun hlýtur að vera met í skattahækkun. Skatturinn var einfaldur og sanngjarn, eitt skattþrep 10% og engar undanþágur. Fjármálaráðherra ræðir um að koma til móts við skattgreiðendur vegna þessara ofboðslegu hækkana með því að leyfa frádrátt frá skattstofni, allt í þeim anda að gera skatta flóknari og illskiljanlegri fyrir allan almenning.
Sanngirni og meðalhóf virðist heyra sögunni til þegar kemur að skattlagningu þegnanna sem réttlætt er með sívaxandi fjárþörf „báknsins“. En hverju hefur þessi aukna skattheimta og vöxtur „kerfisins“ skilað? Eru börnin okkar að fá betri menntun? Nei, því miður er langt í frá að svo sé. skv. PISA-könnunum hefur árangri skólakerfisins farið aftur í tíð núverandi ríkisstjórnar undir forystu menntamálaráðherra. Ekki er við kennara að sakast heldur ofvaxið kerfi sem stöðugt leitar að minnsta samnefnara og kemur í veg fyrir að metnaðarfullir skólastjórar og kennarar fái notið sín.
Er heilbrigðiskerfið orðið betra? Nei, því miður er staðan sú að í tíð núverandi heilbrigðisráðherra hafa biðlistar eftir sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu lengst svo að óforsvaranlegt er. Ríkisstjórnin leggur stein í götu þess að sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónusta fái þróast með eðlilegum hætti. Nánast allir fréttatímar eru yfirfullir af frásögnum um vanda sjúkrahúsa, engu að síður má alls ekki semja við einkastofur á Íslandi, frekar er flogið með sjúklinga á einkastofur í Svíþjóð. Á sama tíma og aðeins nauðsynlegustu aðgerðir eru framkvæmdar, lengjast biðlistar og sjúklingar líða fyrir en samt klárar ríkisstjórnin ekki samninga við sjálfstætt starfandi stofur sem hafa aðstöðuna og geta bætt við sig verkefnum strax.
Hefur til að mynda samgöngukerfi höfuðborgarinnar batnað? Nei, í þeim efnum miðast allt við, að telja okkur trú um að samgöngur batni ef tekst að gera bíleigendum svo erfitt fyrir að þeir neyðist til að leggja einkabílnum og taka strætó sem fær nafnið Borgarlína.“
Undir þetta allt er heilshugar hægt að taka.