Listinn yfir þá sem fengu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Einna mesta athygli hefur vakið fálkaorðan sem dr. Sigurður Hannesson fékk, enda er mál manna að sú viðurkenning sé tímabær fyrir margra hluta sakir.
Í tilkynningu frá orðuritara segir:
„Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins,
Reykjavík, riddarakross fyrir atbeina undir merkjum samtakanna
Indefence og framlag til íslensks atvinnulífs.“
Eins og dr. Þór Whitehead bendir á í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í dag, eru nú tíu ár frá því forsvarsmenn Indefence-hópsins tóku sig saman, gengu á fund þáverandi forseta Íslands og söfnuðu tugþúsundum undirskrifta gegn Icesace-samningunum. Framtak þeirra var gagnmerkt þá þegar og sögulegt, en með árunum hefur vitaskuld komið í ljós að það kann ásamt ýmsu öðru að hafa skipt sköpum í efnahagslegu tilliti fyrir þjóðina til framtíðar.
Sigurður hefur sjálfur sagt að hann hafi veitt viðurkenningu móttöku fyrir hönd stórs hóps fólks sem myndaði þessa grasrótarhreyfingu, en sannleikurinn er sá að með atbeina sínum í Icesave-málinu, útfærslu leiðréttingarinnar svokölluðu og ekki síst uppgjöri við erlenda kröfuhafa og stöðugleikasamkomulaginu svokallaða, hefur hann leikið lykilhlutverk í íslensku stjórnkerfi undanfarin ár, mestanpart bak við tjöldin, í málum sem varða gífurlega hagsmuni til framtíðar fyrir land og þjóð.
Fálkaorðan í gær var því fyllilega verðskulduð viðurkenning og löngu tímabær.