Löngu tímabært að rifta þessu ólánlega ríkisstjórnarsamstarfi

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

„Einkennilegt er að meðan stjórnarandstaðan og jafnvel stöku þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem oft mætti frekar halda að væru talsmenn atvinnurekenda, hamast á því að hér á Íslandi sé allt í kaldakolum, þá hamast alþjóðleg matsfyrirtæki við að lofa ríkisstjórnina fyrir góða efnahagsstjórn. Staðreynd er að Bjarni Benediktsson heldur vel utan málin í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu og að Ísland er á blússandi siglingu,“ skrifar Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður og formaður Tollvarðafélags Íslands, á fésbókinni þar sem hann greinir stjórnmálaviðhorfið.

Guðbjörn skrifar ennfremur:

„Ég gagnrýndi á sínum tíma að ríkisstjórnin ætti að passa sig í pestinni og hvorki ætti að eyða peningum í að bjarga vonlausum fyrirtækjum eða lána peninga sem hætta væri á að töpuðust. Það var ekki gert og aðaláherslan var á að bjarga einstaklingum og lífvænlegum fyrirtækjum. Segja má að bæði sóttvarnar- og efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í pestinni hafi verið yfirvegaðar og skynsamlegar, er varð henni til lífs í kosningum árið 2021.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar því miður staðið sig illa í flestum stórum málum. Þar er fyrst að nefna húsnæðismálin. Vandræðagangurinn í húsnæðismálum er nátengdur öðru „lúxus-vandamáli“, sem er gott gengi í efnahagsmálum þjóðarinnar og aðalatvinnuvegum hennar. Þarna hefði þó verið hægt að bregðast við með bremsandi aðgerðum og það var því miður ekki gert. Af því leiddi síðan ofþensla og allt of mikill innflutningur á vinnuafli.

Hinn málaflokkurinn, sem lítið sem ekkert hefur verið tekið á og hvorki stemning fyrir því á Alþingi eða meðal þjóðarinnar, eru útlendingamálin. Þar hefur verið látið reka á reiðanum líkt og í nágrannalöndunum. Nú er svo komið að þjóðin, sem var vinsamleg bæði í garð flóttamanna og innflutts vinnuafls, hefur snúist hugur og væntanlega er meirihluti nú fyrir því að takmarka verulega innflutning á flóttafólki og vinnuafli. Við því þarf að bregðast hratt.

Litlar líkur eru á að fyrrgreind vandamál verði leyst af núverandi ríkisstjórn, sem hefur haft það að leiðarljósi í 6 ár að upphefja lægsta samnefnarann í öllum málum. Ríkisstjórnin var heldur ekki stofnuð með það í huga að hér yrðu framfarir, heldur af illri nauðsyn því að það stefndi í hálfgerða stjórnarkreppu. Löngu er tímabært að rifta þessu ólánlega ríkisstjórnarsamstarfi og að þjóðin velji sér nýja ríkisstjórn, sem er til þess fallin að leysa aðsteðjandi vandamál.“