Lýst eftir Blaðamannafélagi sem stendur undir nafni

Þeir sem ráða ríkjum í yfirstjórn Ríkisútvarpsins og Reykjavíkurborg ráðast að æru og heiðri fjölmiðlamannsins Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur sem virðist fátt hafa unnið sér til saka en að vinna vandaða umfjöllun um afleit vinnubrögð valdhafa og meðferð hans á opinberum eigum.

Þessir sömu valdhafar beita svo hefðbundnum gaslýsingum ráðandi afla til að koma sér undan ábyrgð þegar kastljósinu er varpað á málið sem er hið óþægilegasta fyrir Dag B Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra. María Sigrún er gerð tortryggileg og brigslað um óheiðarleika sem Kallinn fær ekki betur séð en að standist enga skoðun.

Einhverntímann hefðu viðbrögð Blaðamannafélagsins við slíkum aðdróttunum valdhafa í garð reynds blaðamanns verið kraftmikil – en viðbrögðin voru ekki bara óburðug heldur snerust um aukaatriði fremur en merg málsins. Eftir því sem málinu vindur fram verður þögnin úr herbúðum fagfélags blaðamanna ærandi.

Á sama tíma, talsvert austar í borginni, hefur fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson á Morgunblaðinu sýnt fádæma harðfylgi og fagmennsku í að spyrja umsækjendur um æðsta embætti landsins spjörunum úr um erindi þeirra á Bessastaði í sjónvarpi.

Dæmi um sambærilega þætti í útlöndum eru mýmörg. Ef til vill er hefð fyrir slíkum þáttum ekki jafn rík á Íslandi, en Kallinn er sérstakur áhugamaður um vandaða fjölmiðlun og fagnar því að fram sé kominn þáttur sem spyr frambjóðendur alvöru spurninga; um erindi þeirra, um framtíðina og um fortíðina – og fylgir þeim eftir.

Fyrir vikið hefur fjölmiðlamaðurinn hins vegar víða hlotið bágt fyrir frá fylgismönnum þeirra frambjóðenda sem hafa átt erfitt með að svara hárbeittum spurningunum. Þeir meinfýsnustu hafa gengið svo langt að draga fjölskyldu fjölmiðlamannsins inn í vanstillta umræðuna. Formaður Blaðamannafélagsins lætur — eftir dúk og disk — stutta færslu á eigin Facebook-síðu duga sem svar stéttarinnar við tilefnislausum og rætnum ærumeiðingum í hans garð.

Spursmál/mbl.is

Sú var tíðin að Blaðamannafélagið hefði tekið rækilega upp hanskann og til varna fyrir þessa kollega sína á opinberum vettvangi. Félagið sem hefur einmitt staðið í sérstakri herferð til að minna á mikilvægi sjálfstæðrar og óháðrar blaðamannesku.

En það er einmitt við svona tilefni sem þeir koma upp í hugann, félagarnir Jón og séra Jón…