Machiavelli í Svörtuloftum

Niccolò Machiavelli (1469‒1527).

Dr. Ásgeir seðlabankastjóri Jónsson hefur ekki beðið boðanna eftir að hann tók við störfum og í fjármálageiranum er víða talað um að hann hafi komið sér upp allsherjarvöldum í Svörtuloftum við Kalkofnsveg á undraskömmum tíma.

Þrátt fyrir að nýleg lagasetning um Seðlabankann hafi öðrum þræði verið hugsuð til að dreifa þar völdum og fá fleiri aðila að ákvarðanatöku, bendir margt til þess að Ásgeir hafi farið hratt og skipulega í að tryggja stöðu sína og losa sig við mögulega keppinauta eða harða gagnrýnendur.

Viljinn hefur þegar sagt frá þeim óvæntu tíðindum að Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu hafi sótt um stöðu ríkissáttasemjara. Engir kærleikar munu vera með henni og Ásgeiri og eitt fyrsta verk hans var að segja syni hennar upp störfum hjá bankanum.

Fyrir helgi var svo tilkynnt um margvíslegar hagræðingaraðgerðir í framhaldi af sameiningunni við Fjármálaeftirlitið, sem tók formlega gildi um áramótin. Átta var þá sagt upp störfum, m.a. nokkrum helstu lykilstjórnendum FME. Þeirra á meðal var dr. Jón Þór Sturluson aðstoðarforstjóri FME sem sótti um seðlabankastjórastöðuna á sínum tíma og var talinn líklegur eftirmaður Unnar Gunnarsdóttur sem varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Í þeirri frægu bók Furstanum  (Il Principe) eftir Machiavelli er listað upp hvernig bera eigi sig að í því að tryggja sér völd, treysta sig í sessi og verjast atlögum mögulegra andstæðinga. Bókinni hefur verið lýst sem einni fyrstu handbókinni um stjórnun og þar er meðal annars fjallað um skilyrði þess að stjórnandi ríkis, það er furstinn, geti haldið völdum sínum, sérstaklega ef hann hefur nýlega tekið við þeim. Lykilþráður í ritinu er að „taka enga gísla“ en losa sig við mögulega keppinauta sem fyrst og tryggja þannig starfsfrið og völd til langframa.

Líkast til er Machiavelli á góðum stað í bókasafni nýs seðlabankastjóra. Hann hefur komið þeim skilaboðum rækilega á framfæri innan bankans og utan, að hann ráði för. Og þannig verði það.