Mannréttindadómstóllinn telur að Ólafur Ólafsson njóti líka mannréttinda

Ólafur Ólafsson. / Skjáskot: RÚV.

Kunnara er en frá þurfi að segja, að á fyrstu árunum eftir hrun hafi ákall samfélagsins eftir sökudólgum og refsingum þeim til handa verið háværara en ítrekaðar kröfur lögmanna um mikilvægi þess að mannréttindi allra væru virt og gætt að sjónarmiðum réttarríkisins.

Af þeim sökum þarf ef til vill ekki að koma á óvart, að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi látið svokölluð hrunmál til sín taka að undanförnu. Til að mynda hreinsaði dómstóllinn Jón Ásgeir Jóhannesson af refsingu vegna skattamála á grundvelli banns við tvöföldum refsingum og hefur skattrannsóknarstjóri síðan verið hálfvegis í lausu lofti í rannsóknum sínum og beðið ósigur í réttarkerfinu hvað eftir annað, nú síðast með frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á ákærum gegn hljómsveitarmeðlimum í Sigurrós, en þar hafði verið reitt hátt til höggs, ákært til þungra refsinga og kyrrsett fyrir mörg hundruð milljónir króna með tilheyrandi álitshnekki og fjártjóni fyrir tónlistarmennina.

Þótt íslenskt réttarfar hafi um stundarsakir gleymt þeim grundvallaratriðum, vinnur Mannréttindadómstóllinn eftir þeirri meginreglu að gyðja réttlætisins sé blind og geri því ekki mannamun og allir hafi rétt á réttlátri málsmeðferð. Jafnvel menn eins og Ólafur Ólafsson sem ekki hefur farið hátt í vinsældakosningum hér á landi seinni ár.

Í því ljósi liggur nú fyrir að MDE hefur gert íslenskum stjórnvöldum að gera tillögu um hvernig bæta beri Ólafi það að hafa verið dæmdur í Al Thani-málinu til fangelsisvistar af vanhæfum dómurum, sem liggur fyrir að höfðu sjálfir umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af falli bankanna, og í gær var upplýst að dómstóllinn hafi tekið til skoðunar málsmeðferð Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) við rannsókn og gerð skýrslu um þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003, þegar íslenska ríkið seldi 45,8% hlut sinn í bankanum.

Ólafur Ólafsson beindi kæru til Mannréttindadómstólsins um miðjan júlí 2017. Í kæru Ólafs eru færð rök fyrir því að hann hafi ekki notið réttinda sem honum áttu að vera tryggð og að umgjörð og málsmeðferð RNA hafi í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins.

Spurningarnar sem Mannréttindadómstóll Evrópu sendi stjórnvöldum lúta að því hvort líta beri á rannsókn RNA sem sakamálarannsókn og sé svo, hvort Ólafur hafi þá notið viðeigandi réttarverndar og hafi mögulega verið gert að svara spurningum án þess að gætt hafi verið að rétti hans til að svara ekki spurningum eða fella ekki á sig sakir. Þá er spurt hvort gætt hafi verið að þeirri meginreglu að menn skuli teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.

Eins er spurt hvort réttur Ólafs til friðhelgi einkalífs hafi verið skertur í skilningi 8. greinar sáttmálans og hvort honum hafi staðið til boða fullnægjandi innlend úrræði þar sem hann hefði getað leitað réttar síns samkvæmt 13. grein. Snerta spurningar dómstólsins því ekki einungis málsmeðferð stjórnvalda samkvæmt 6. grein heldur einnig 8. og 13. grein.

Þá er íslenska ríkinu boðið að leggja fram enska þýðingu á niðurstöðum RNA, endurrit á ensku á ummælum fulltrúa RNA sem varða Ólaf og voru viðhöfð í sjónvarpi og á blaðamannafundi sem haldinn var til kynningar á niðurstöðunum.

Enn liggur ekki fyrir hverjar lyktir málsins verða, en margt bendir til að íslenska ríkið hafi enn á ný farið offari í þeirri viðleitni sinni að finna sökudólga. Skotið hafi verið fyrst og spurt svo.

Skemmst er að minnast þess, að lítil sem engin stemning var fyrir því að heyra málsvörn Ólafs Ólafssonar fyrir þingnefnd eftir að skýrsla einsmanns rannsóknarnefndarinnar hafði litið dagsins ljós, því dómstóll götunnar hafði fyrir löngu fellt sinn dóm.