Margir tugir eða hundruð sjómanna hefðu farist í slíku veðri fyrr á tímum

Þjóðin býr sig nú undir sannkallað ofsaveður, eða það sem í gamla daga hefði verið mannskaðaveður. Rauð veðurviðvörun hefur aldrei áður verið gefin út og víða um land er fólk einfaldlega beðið um að halda sig heima þar til ósköpin hafa gengið yfir.

Illugi Jökulsson, útvarpsmaður og rithöfundur, er áhugamaður um veður eins og flestir landsmenn (og ótrúlega margir lesendur Viljans) og hann setti fram þessa athyglisverðu færslu í gærkvöldi, þegar margir landsmenn sátu yfir veðurkortunum sínum.

„Núna rétt fyrir miðnætti er frekar kyrrlátt veður um mestallt land. Og snemma í fyrramálið verður líka tiltölulega kyrrlátt veður, ekki nema soldið farið að hvessa.

Í flestum, ef ekki öllum, sjávarplássum á Íslandi eru minnismerki um drukknaða sjómenn — hetjur hafsins. Hér heiðra Vopnfirðingar minningu þeirra á Sjómannadaginn.

Ef við förum 150 ár aftur í tímann, eða 200 ár, eða 300, þá myndu bátaformenn við þær aðstæður ræsa menn sína um fjögurleytið í nótt og stefna sínum áttæringum á sjó löngu áður en fer að birta – og sexæringum sínum og tveggjamannaförum og öðrum smábátum – og karlar og kerlingar myndu sitja í sínum blautu skinnklæðum og vaðmáli að draga sín færi þegar færi að birta og í dagrenningu myndu menn skyndilega sjá kolsvarta blikuna á lofti og fárviðrið sem nú er að nálgast landið úr öllum áttum myndi skella á áður en bátarnir kæmust aftur til strandar, þetta ofsalega veður.

Ég get sagt ykkur að í veðri eins og því sem skellur á á morgun myndu tugir, margir tugir, kannski hundruð sjómanna hafa farist á hinum opnu bátum fyrr á tímum.“

Það er nöturlegt til þess að hugsa.