Margrét í stýrihópi Samfylkingarinnar: „Festum okkur ekki í flokkapólitík“

Margrét hefur oft verið ræðumaður hjá Viðreisn, en kveðst ekki bundin neinum flokki.

„Ég er hvergi skráð í flokk. Taldi einfaldlega að ég hafði margt fram að færa í þessari vinnu þegar eftir því var leitað,“ segir Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, í samtali við Viljann í tilefni þess að hún hefur verið skipuð í nýjan stýrihóp Samfylkingarinnar í málefnastarfi um atvinnu- og samgöngur. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, er formaður hópsins.

Margrét hefur verið nokkuð tengd Viðreisn á undanförnum árum, verið oft ræðumaður hjá flokknum, einkum þegar gjaldmiðilsmálin eru rædd. Hún segir mikilvægt að við Íslendingar „festum okkur ekki í flokkapólitík í mikilvægum málum,“ og nefnir að hún verði ræðumaður á næstu dögum hjá Viðreisn að ræða mikilvægi þess að skoða aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Margrét er framkvæmastjóri Pfaff, sem var stofnað af afa hennar Magnúsi Þorgeirssyni árið 1929. Margrét er því þriðja kynslóð fjölskyldunnar sem kemur að fyrirtækinu.

Margrét var áður formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og varaformaður Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs. Einnig gengdi hún formennsku hjá Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) um árabil.