Maskína Höllu Hrundar vill sækja „af alefli“ atkvæði frá öðrum en Katrínu

Nú þegar aðeins er tæp vika til kosninga, er að skýrast hvernig frambjóðendur og kosningamaskínur þeirra leggja upp lokadagana. Vitaskuld er breytilegt milli framboða hvort markmiðið er að sækja fram og taka jafnvel áhættu, en á stuðningsmannasíðu Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, sem fór fyrst með himinskautum í könnunum en hefur svo dalað verulega, er rætt hvernig breyta megi stöðunni.

Karen Kjartansdóttir, fv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sem sinnt hefur almannatengslum fyrir Höllu Hrund hjá Orkustofnun og aðstoðar hana nú í kosningabaráttunni, sendi línu á stuðningsmenn í morgun, þar sem segir:

„Skoðanakannanir gefa til kynna, að aðeins Katrín Jakobsdóttir og/eða Halla Hrund hafi raunverulega möguleika á að ná kjöri. Reyndar virðist Katrín vera komin með umtalsvert forskot, í bili, enda studd dyggilega af stjórnmálamönnum, valdastétt og kapítali.“

Jón Ingi Gíslason, einn þekktasti kosningasmali Framsóknar, segir næstu daga mikilvæga:

„Það þarf mjög beitta og strategíska framgöngu þessa síðustu viku. Það þarf að sækja atkvæðin þar sem þau eru mögulega föl. Það eru atkvæði sem kannanir sýna að eru hjá öðrum en valdastéttarframboðinu. Þangað þarf að sækja af alefli. Annað sætið í skoðanakönnunum undir lok vikunnar er lykillinn fyrir strategísku vali fjölmargra á kjördag.“