Meðan vandamálin hlaðast upp innanlands er gott að geta sótt ráðherrafundi erlendis

„Ríkisstjórnarflokkarnir eru komnir í sjálfheldu. Bakland stjórnarflokkanna er orðið órólegt og kjósendur þeirra eru, skiljanlega, óánægðir með „störf“ ráðherra sinna,“ skrifar Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á vefsíðu sinni og bætir enn í gagnrýni sína á flokk sinn og ríkisstjórnarsamstarfið. Hann segir nauðsynlegt að hafa gæsalappir þegar rætt sé um verkefni ráðherra, því flest hafi verið látið reka á reiðanum síðustu misseri.

Eins og Viljinn hefur skýrt frá, undirbýr Arnar Þór nú fundaferð um landið til að ræða hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvarflað frá stefnu sinni og möguleikann á nýju borgaralegu framboði. Hann lætur flokkssystkin sín og aðra ráðherra heyra það í pistlinum:

„Meðan vandamálin hlaðast upp innanlands er gott að geta sótt ráðherrafundi erlendis og hitta þar góða ,,kollega“ sem hægt er að faðma og kyssa, því jafnvel á flokksráðstefnum heima fyrir finnst ekki slík þægileg samstaða og skilningur. Þessi láréttu tengsl virðast vera farin að skipta ráðamenn meira máli en lóðréttu tengslin við kjósendur sína. Fyrir kjósendur VG hlýtur að vera óþægilegt að sjá forsætisráðherrann skellihlæjandi á NATO fundum, þar sem olíu er hellt á ófriðarbálið í Úkraínu.

Starfhæf ríkisstjórn vinnur saman sem ein heild, en starfar ekki í deildum eins og núverandi ríkisstjórn virðist nú að gera til að framlengja líf sitt. Mótsagnakennd framganga ráðherranna mun á endanum magna upp slíkt óþol á alla kanta að stjórnin mun springa með hvelli. Þau endalok óttast atvinnustjórnmálamenn stjórnarflokkanna mjög enda er fyrirsjáanlegt að þeim verður refsað í næstu kosningum. Í örvæntingu sinni reyna ráðherrar að friða kjósendur sína með dyggðaflöggun, sbr. frumhlaup matvælaráðherrans í hvalveiðimálum og frumhlaup utanríkisráðherrans með lokun sendiráðs Íslands í Moskvu.

Eftir því sem þetta ástand varir lengur, þeim mun óvinsælli verða ríkisstjórnarflokkarnir. Í beinu samræmi við þetta mun vaxa tregða meðal allra þessara flokka við það að slíta stjórninni, því ekki blasir við hvernig komast megi hjá kosningum í framhaldi, enda eru aðrir flokkar ýmist óstjórntækir eða áhugasamir um að láta kjósa á ný í von um að fá vind í sin segl.

Af öllu framangreindu leiðir, að meðan núverandi ástand helst óbreytt munu íslensk stjórnmál birtast okkur í sinni verstu mynd.“