Stöðva verður flaum flóttamanna til landsins, ekki síðar en strax, og taka málaflokkinn úr höndum „áhugamanna og sérvitringa“. „Meginmistök“ voru að Íslendingar hafi „álpast“ inn í Schengen-samstarfið, segir Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, en hann var einmitt forsætisráðherra landsins þegar Schengen-samstarfið gekk í gildi og Ísland varð aðili að því.
Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu að ágreiningur hafi verið um Schengen-samstarfið í ríkisstjórninni, en tveir fagráðherrar hafi „lagt á það ofurkapp“.
„Svo kom á daginn hvað að baki bjó. Þessir tveir áttu leynda drauma um að þrengja Íslandi inn í ESB hvað sem tautaði og raulaði,“ bætir hann við.
Schengen-samstarfið nær til 27 ríkja. Þau eru EFTA ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, og 23 ríki innan Evrópusambandsins: Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Króatía, Lettland, Litáen, Lúxemborg, Malta, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Ungverjaland, Tékkland og Þýskaland. Sem stendur nær samstarfið ekki til fjögurra af 27 aðildarríkjum ESB: Búlgaríu, Kýpur, Írlands og Rúmeníu.
Árið 1985 var Schengen-samkomulagið undirritað, milli ríkisstjórna Þýskalands, Frakklands og Benelúxlandanna þriggja, nánar tiltekið Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Schengen-samstarfið dregur nafn sitt af litlum bæ í Lúxemborg sem liggur við bakka Móselárinnar, á landamærum Frakklands og Þýskalands, en þar var samkomulagið undirritað árið 1985. Ísland undirritaði samning um þátttöku í Schengen-samstarfinu í desember 1996, samhliða Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felst einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum, skv. vef Stjórnarráðsins.