„Meginmistök“ að Ísland hafi „álpast“ inn í Schengen-samstarfið

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra.

Stöðva verður flaum flóttamanna til landsins, ekki síðar en strax, og taka málaflokkinn úr höndum „áhugamanna og sérvitringa“. „Meginmistök“ voru að Íslendingar hafi „álpast“ inn í Schengen-samstarfið, segir Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, en hann var einmitt forsætisráðherra landsins þegar Schengen-samstarfið gekk í gildi og Ísland varð aðili að því.

Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu að ágreiningur hafi verið um Schengen-samstarfið í ríkisstjórninni, en tveir fagráðherrar hafi „lagt á það ofurkapp“.

„Svo kom á daginn hvað að baki bjó. Þessir tveir áttu leynda drauma um að þrengja Íslandi inn í ESB hvað sem tautaði og raulaði,“ bætir hann við.

Schengen-samstarfið nær til 27 ríkja. Þau eru EFTA ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, og 23 ríki innan Evrópusambandsins: Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Króatía, Lettland, Litáen, Lúxemborg, Malta, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Ungverjaland, Tékkland og Þýskaland. Sem stendur nær samstarfið ekki til fjögurra af 27 aðildarríkjum ESB: Búlgaríu, Kýpur, Írlands og Rúmeníu.

Árið 1985 var Schengen-samkomulagið undirritað, milli ríkisstjórna Þýskalands, Frakklands og Benelúxlandanna þriggja, nánar tiltekið Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Schengen-samstarfið dregur nafn sitt af litlum bæ í Lúxemborg sem liggur við bakka Móselárinnar, á landamærum Frakklands og Þýskalands, en þar var samkomulagið undirritað árið 1985. Ísland undirritaði samning um þátttöku í Schengen-samstarfinu í desember 1996, samhliða Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felst einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum, skv. vef Stjórnarráðsins.