Miðflokkurinn nálgast þingstyrk Sjálfstæðisflokksins

Samsett mynd, annars vegar úr þjóðarpúlsi Gallup frá í gær og hins vegar af þorrablóti Stjörnunnar á dögunum, þar sem Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð voru meðal gesta. Eggert á Morgunblaðinu tók myndina fyrir Smartlandið.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi tólf þingmenn kjörna, yrðu úrslit alþingiskosninga í samræmi við niðurstöður í Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í gær. Athygli vekur að Miðflokkurinn fengi aðeins tveimur þingmönnum færra, tíu talsins.

Munurinn á flokkunum tveimur er meiri ef rýnt er í prósentutölur, en úthlutun þingsæta skv. könnuninni væri þessi. Ríkisútvarpið á eftir að brjóta tölurnar frekar upp samkvæmt kjördæmum.

Miðflokkurinn hefur verið í mikilli sókn allt síðasta ár og bætt fylgi sitt jafnt og þétt. Í síðustu kosningum fékk hann aðeins þrjá þingmenn kjörna og stökk einn þeirra, Birgir Þórarinsson beint frá borði á kosninganótt, eins og frægt varð, og gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins.

Tveggja manna þingflokkur þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar hefur hins vegar verið duglegur við að halda baráttumálum sínum á lofti og gagnrýna ríkisstjórnarflokkana fyrir aðgerðaleysi í ýmsum málum og stjórnleysi í öðrum. Miðað við síðustu kannanir er eru líkur á að þingflokkurinn margfaldist að styrk í næstu kosningum og má búast við að ný nöfn mögulegra frambjóðenda komi fram á næstunni.