Grein alþingismannsins Brynjars Þórs Níelssonar í Morgunblaðinu í dag um mikilvægi kristninnar í samfélaginu er eins og ferskur blær í eintóna varnarumræðu um kirkjuna sem tröllriðið hefur öllu undanfarið og er ekki í neinu samræmi við upplifun þeirra sem rækja sitt trúarlíf með einhverjum hætti.
Brynjar rifjar upp í grein sinni, að hann hafi fyrir stuttu sagt á þingi að nauðsynlegt sé að lesa biblíusögur til að vera sæmilega læs á tungu og menningu þjóðarinnar.
„Auðvitað brugðust þeir illa við sem lagt hafa alla sína orku í að afmá úr samfélaginu allt sem tengist kristinni trú, og mótmæltu hástöfum,“ segir Brynjar og bendir á skrif Jóns G. Friðjónssonar prófessors um áhrif Biblíunnar á íslenska tungu og menningu. Þegar hann hafi fengið verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til kennslu, rannsókna og fræðiskrifa um íslenska tungu á síðasta ári, hafi Jón bent á að ekkert eitt rit hafi haft jafn mikil áhrif á íslenska tungu og menningu og Biblían.
Brynjar bendir aukinheldur á, að þeir sem amist mest við kristinni trú og hafi komið því til leiðar að hún er nánast horfin úr námskrá grunn- og framhaldsskóla og ekki síður hinir sem hafa látið það viðgangast, mættu gefa því gaum hvort þekking á kristinfræði geti skipti máli fyrir skilning okkar á íslenskunni og þeirri menningararfleifð sem við byggjum á.
„Hvort það geti verið að þekking á kristinfræði sé nauðsynleg forsenda til skilnings á tungu okkar, vestrænni menningu, samfélagi og gildismati.
Þeir sem hafa haft mest áhrif í þessum efnum gera lítinn greinarmun á fræðslu annars vegar og trúboði hins vegar. Markmið með kristinfræði og trúarbragðafræði er ekki að innræta trú heldur að kynna og miðla þekkingu á hugmyndaheimi og raunveruleika sem hefur mótað sögu okkar og menningu í aldanna rás. Trúarinnræting fer fyrst og fremst fram inni á heimilum, eða á vegum kirkjunnar og annarra trúfélaga,“ segir hann og undir hvert orð skal tekið.
Brynjar lýkur grein sinni á því að minnast orða dr. Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, sem sagði mikil forréttindi að búa í kristnu samfélagi.
Kristján viðhafði þau ummæli árið 1980 og sagði:
„Við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi – að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“
Þess vegna lýkur Brynjar grein sinni á þessari spurningu:
„Eigum við ekki að fara að þessum ráðum og íhuga þetta í alvöru?“