Mikill meirihluti þjóðarinnar andsnúinn opnun með þessum hætti

„Koma smitaðra Rúmena hingað til lands hefur valdið miklum áhyggjum. Við skynjum öll hvað sóttvarnirnar standa tæpt. Það er til dæmis ekki hægt að reiða sig á að allir séu heiðarlegir,“ segir sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason í færslu á fésbókinni í dag.

Hann kveðst þar hafa ferðast víða um landið síðustu daga og andrúmsloftið sé mjög sérstakt:

„Íslendingar að ferðast – fólk spjallar mikið saman og upplifir ákveðna frelsistilfinningu.

En þeir sem ég hitti í gærkvöldi og í morgun var brugðið vegna Rúmenanna. Það var eins og þrengdi aðeins að frjálsræðinu og gleðinni.

Og ég hef ekki hitt einn einasta mann sem vill opna landamæri Íslands með þeim hætti sem stjórnvöld áforma. Ég heyri að fólk sem vinnur í ferðaþjónustu er óttaslegið – nú á það að vera í „framlínunni“.

Held að mikill meirihluti þjóðarinnar sé andsnúinn þessu. Ferðir hinna smituðu Rúmena hljómar eins og hvell vekjaraklukka.“