Nær Hildur að byggja brú í klofnum hópi?

Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni voru ekki mjög óvænt, það markverðasta var eiginlega hversu brösuglega gekk að telja í Valhöll. Þannig áttu fyrstu tölur úr prófjörinu að birtast beint í sjónvarpsfréttum, en urðu svo ekki opinberar fyrr en kl. 22 og lokatölur voru fyrst ljósar á þriðja tímanum í nótt.

Hildur Björnsdóttir er nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og má vel við una, hún glansaði í prófkjörinu og aðdraganda þess og þar er klárlega kominn fram nýr framtíðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Hildur er hins vegar í nokkuð furðulegri stöðu, þar sem hún fór á aðeins örfáum vikum úr því að að vera áskorandi Eyþórs Arnalds og með allt að vinna en engu að tapa, í að vera sterki frambjóðandinn gegn næsta óþekktum áskoranda sem hafði fattað (eins og raunar blasað hefur við lengi) að mikill hljómgrunnur er í grasrót flokksins gegn flestu því sem núverandi meirihluti stendur fyrir.

Varaborgarfulltrúinn Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir kom því sá og sigraði í prófkjörinu þótt hún hafi endað í öðru sæti. Hún sýndi mikla dirfsku með því að bjóða sig fram sem oddviti, fékk þar með mikla athygli og tækifæri til að gagnrýna ofáherslu á þéttingarstefnu, umferðarskipulag og skýjaborgir um borgarlínu á kostnað annarra framkvæmda í samgöngumálum og nýtti það vel með því að stimpla sig rækilega inn með glæsilegum árangri.

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir.

Vandi Hildar er ekki ósvipaður þeim sem Eyþór Arnalds stóð frammi fyrir fyrir fjórum árum. Hann vann ágætan sigur í kosningunum, en meirihlutinn fékk framhaldslíf þótt hann hefði fallið með því að Viðreisn breyttist í vinstri flokk á einu augabragði og hvarf þannig inn í meirihluta án þess að merkja mætti nokkra áherslubreytingu. Eyþór hafði aldrei allan borgarstjórnarhópinn með sér, meirihlutinn gat með rökum bent á að Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn í mikilvægum málum og talaði ekki einni röddu.

Sama er uppi í teningnum nú: Í næstu sætum í prófkjörinu urðu frambjóðendur sem samsvara sig frekar stefnu Ragnhildar Öldu en Hildar í mörgum málum. Þetta á við um þau Kjartan Magnússon sem varð í þriðja sæti, Mörtu Guðjónsdóttur sem varð fjórða og Björn Gíslason í fimmta sæti.

Friðjón R. Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður formannsins Bjarna Benediktssonar, endaði í sjötta sæti eftir að hafa ætlað sér 2. sætið og þar á eftir kemur nýr inn lögfræðingurinn Helgi Áss Grétarsson sem talaði fyrir nýjum hverfum í útjaðri borgarinnar, þvert á þær skipulagsmöntruru Gísla Marteins Baldurssonar sem virðast kyrjaðar alla daga í Ráðhúsinu, flestum sjálfstæðismönnum til mikillar skapraunar.

Nú blasir það verkefni við nýjum oddvita að sameina hóp sem er eflaust sammála um margt í pólitík, en alveg ósammála um annað og koma saman trúverðugri stefnu sem er líkleg til þess að falla borgarbúum í geð og fella meirihlutann. Hvernig henni tekst til, mun ekki aðeins ráða úrslitum um það hver verður borgarstjóri, heldur einnig hversu mikið óánægjufylgi fer frá grasrót Sjálfstæðisflokksins yfir til Framsóknarflokksins og Miðflokksins á næstu vikum.

Alls kusu 5.545 í prófkjörinu. Gild atkvæði voru 5.292 atkvæði. Auð og ógild atkvæði eru 253.

Röð ellefu efstu manna í prófkjörinu er eftirfarandi:

  1. sæti Hildur Björnsdóttir með 2.603 atkvæði
  2. sæti Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir með 2.257 atkvæði í 1. – 2. sæti
  3. sæti Kjartan Magnússon með 1.815 atkvæði í 1. – 3. sæti
  4. sæti Marta Guðjónsdóttir með 1.794 atkvæði í 1. – 4. sæti
  5. sæti Björn Gíslason með 1.555 atkvæði í 1. – 5. sæti
  6. sæti Friðjón R. Friðjónsson með 1.688 atkvæði í 1. – 6. sæti
  7. sæti Helgi Áss Grétarsson með 1.955 atkvæði í 1. – 7. sæti
  8. sæti Sandra Hlíf Ocares með 2.184 atkvæði í 1. – 8. sæti
  9. sæti Jórunn Pála Jónasdóttir með 2.396 atkvæði í 1. – 9. sæti
  10. sæti Birna Hafstein með 2.319 atkvæði í 1. – 9. sæti
  11. sæti Valgerður Sigurðardóttir með 2.231 atkvæði í 1. – 9. sæti

Nánari sundurliðun atkvæða má sjá hér.