Brynjar Níelsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins er ekki á því að banna eigi notkun flugelda um áramót, eins og ýmsir hafa lagt til að undanförnu.
Í færslu sem þingmaðurinn birti í dag og er í léttum dúr, segir hann:
„Algeng krafa er um að banna ýmsa hluti sem veldur einhverjum tímabundnum óþægindum, kvíða eða depurð. Telst nú um stundir til mannréttinda að hvert okkar sé laust við slíkt alla daga ársins.
Næst á að banna flugelda því örfáir finna til óþæginda tímabundið um hánótt einn dag á ári. Sem þó er hægt að bregðast við með ýmsum hætti án banns.
Nær væri að banna að eiginmenn gefi eiginkonum jólagjafir hvert ár. Veit til þess að slíkt hafi valdið miklum kvíða, sérstaklega hjá mönnum sem hafa verið í hjónabandi í marga áratugi.“