Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, gerir áhugaverða samanburðarrannsókn á breska þinginu og því íslenska í Reykjavíkurbréfi dagsins í Mogganum og sendir eftirmanni sínum í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, eitraða pillu um leið.
Um atkvæðagreiðslur í neðri deildinni segir hann:
„Það gerist með tvennum hætti. Í stórmálum kallar forseti til atkvæða og tilkynnir talningarmenn úr röðum stjórnar og stjórnarandstöðu. Svo er gengið úr salnum þar til að kemur að tveimur göngum. Þar fara menn í gegnum annan ganginn segi þeir já og hinn ef þeir segja nei.
Hver slík kosning tekur að jafnaði aðeins 15 mínutur þótt þingmennirnir séu á sjöunda hundrað. Stundum lætur forseti nægja að kalla til atkvæðagreiðslu og spyr salinn: „Þeir sem segja já.“ Þá heyrast barkahljóð sem merkja já. „Þeir sem segja nei?“ Sé munur hljóðstyrks, eins og hann mælist í eyra forseta, afgerandi þá úrskurðar forseti, ella „losar hann um salinn“ og greidd eru atkvæði með fótunum.
Það er stórundarlegt, ef marka má íslensk klaufaspörk, að þessi aðferð hafi ekki verið margkærð til Mannréttindadómstólsins. Því Bretar eru jú bundnir af úrskurðum hans og þar með talið öllum dellum hans sem fer sífjölgandi. En Ísland, sem er ekki bundið af þessum dómi, sem betur fer, tekur sjálft ekki mark á því kristaltæra ákvæði sem kveður á um það. Ef það ákvæði væri ekki fyrir hendi hefði Ísland brotið sína eigin stjórnarskrá með aðild að dómstólnum.
Íslenska dómsmálaráðuneytið er í forystu fyrir því að brjóta íslensku stjórnarskrána í reynd og dómstólar eru sumir ekki langt undan! Nú síðast ákváðu íslensk yfirvöld að taka ekki mark á réttindum landsins í EES-samningnum og skýringin sem blasir við er sú ein, að þau séu haldin yfirgengilegum kvíða- og hræðsluköstum eigi þau samskipti við útlendinga og þurfi í eitt skipti af þúsund að segja ekki já og amen eins og þau gera jafnan.
Það vantar ekki að breska þingið er í sviðsljósinu núna. Þeir sem fylgjast með sjá að þar hefur ekki orðið eins mikið hæfileikafall og sums staðar, og enn er þar flutt mörg snilldarræðan, fyrir málstað viðkomandi. Þeir sem slökktu fljótt eftir fliss og fum manna í ábyrgðarsætum hér heima sem áttu enga aðra aðgöngu en fíflskap og spé reyna að fjarlægja þá mynd úr minni sínu sem fyrst.“
Og loks segir Davíð:
„Við höldum því fram að þingið okkar sé það elsta í heimi og slengjum því fram við þá sem kalla þingið sitt í Westminster „móður allra þinga“ að amma þinganna sé skammt undan norðan á.
En okkar þing var óneitanlega lungann af langri sögu ekki rödd fullvalda eða sjálfstæðrar þjóðar. Og nú keppast menn við að komast í sama far aftur. Sífellt stærri hluti mála kemur nú að utan og allir bugta sig og næst gólfinu fer sá sem síst skyldi, þrátt fyrir nafnið.“
Svo mörg voru þau orð.
Það þarf víst ekki doktorsgráðu í stjórnmálafræði til að reikna út hver það er, sem „síst skyldi, þrátt fyrir nafnið“.