Á ársfundi Landsvirkjunar í fyrra fjallaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra um eignarrétt á orkuauðlindinni og sagði það misskilning að vatnsafl og jarðvarmi væru þjóðareign, líkt og fiskurinn í sjónum. Vatnsafl og jarðvarmi tilheyrðu eignarrétti á landi, eins og laxveiðiréttindi tilheyrðu jörðum og væru því oft í einkaeigu.
Hún lýsti yfir eindregnum stuðningi við áform um þjóðarsjóð sem byggður væri upp með arði af náttúruauðlindum þjóðarinnar og lýsti um leið áhyggjum af sóun sem fælist í einangrun orkukerfisins. Það leiddi af sér að tvær teravattstundir færu til spillis á ári hverju og mætti hreinlega líkja við brottkast í sjávarútvegi.
Miðað við að þrjú þúsund krónur fengjust fyrir hverja megavattstund á markaði næmi þessi sóun um sex milljörðum króna í meðalári. Þessu mætti auðveldlega breyta með sölu á raforku gegnum sæstreng til útlanda.
Tenging væri þar með komin við raforkumarkað Evrópu og „umframorkan“ sem ráðherrann nefndi, færi ekki lengur til spillis.
Engin landráð að leggja sæstreng
Aðeins fyrir fáeinum mánuðum sögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans, að engar líkur væru á því að slíkur strengur yrði lagður á næstunni.
En í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í gær, sagði iðnaðarráðherrann að sala á raforku gegnum sæstreng geti aukið fjölbreytni og samkeppni í íslenskum raforkuiðnaði.
„Ég náttúrulega skildi það aldrei alveg, það samhengi hlutanna að það væri einhvers konar landráð að fara í útflutning í gegnum streng. Við erum í dag með útflutning í gegnum ál. Fyrir mér er það bara hagsmunamat og ég geri enga athugasemd við að það sé kannað hvort að hugsanlega það geti verið góð hugmynd fyrir Íslendinga að selja raforku til útlanda. Við gerum það bara í öðru formi í dag. Það er nú þannig að þessir strengir, það er ekki gefið að við séum bara að flytja orku út, heldur til dæmis í Noregi er hellingur af raforku flutt inn,“ sagði Þórdís Kolbrún í þættinum.
Um þetta fjallaði Viljinn í frétt, sem vakti gríðarlega athygli í gærkvöldi og mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Svo mikil, að ráðherrann varð að bregðast við strax í bítið og segja að hún hafi ekki verið að segja neitt nýtt, það sé „ekkert að frétta“ og hún hafi bara verið að bollaleggja almennt um framtíðina.
Einhver trúarbrögð að vera á móti
„Ég tek eftir því að menn hlaupa upp til handa og fóta, telja sig geta sagt „hah, hvað sagði ég, hún berst fyrir streng!”
Orð mín um sæstreng í gær voru nákvæmlega engin stefnubreyting. Engin ný skoðun. Ekkert að frétta. Viljinn segir ranglega í fyrirsögn að ég hafi í viðtalinu boðað könnun á fýsileika sæstrengs. Ég var ekki að boða neitt slíkt.
Heldur svaraði spurningu Heimis Más almennt og sagði einfaldlega að ég gerði enga athugasemd við að kannað væri hvort kannski einhvern tímann væri sniðugt að selja raforku til útlanda. Rétt áður sagði ég það sama á Sprengisandi og að í þessu hagsmunamati yrði að sjálfsögðu að taka með í myndina þá verðmætasköpun sem getur orðið til með því að nýta orkuna hér á landi, störfin, áhrif á byggð o.s.frv. Þetta hef ég oft sagt.
Síðast þegar þetta var kannað var niðurstaðan sú að þetta væri fremur langsótt og myndi ekki borga sig á markaðslegum grundvelli. Forsendur geta breyst og fráleitt að útiloka um alla framtíð að þetta gæti orðið skynsamlegt. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar taldi þetta áhugaverðan möguleika á sínum tíma en það virðast vera orðin einhver trúarbrögð að vera á móti þessu, svo heiftarlega að það er umsvifalaust gert grunsamlegt ef einhver segir að það sé sjálfsagt að skoða þetta. Hvort hugsanlega kannski sé eitthvað í þessu fyrir Ísland, einhvern tímann.
Sæstrengur er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Engin ný ákvörðun hefur verið tekin. Alþingi þarf að taka ákvörðun um að hefja slíka framkvæmd. Ég lagði sjálf til þær breytingar.
Menn geta skammast í mér fyrir að loka ekki dyrum til framtíðar, fyrir að gera ekki athugasemd við að fá frekari upplýsingar fram í veröld sem hreyfist mjög hratt. Það verður þá að hafa það, ég mun ekki breyta þeirri nálgun minni á framtíð Íslands,“ segir Þórdís Kolbrún ennfremur í færslu á fésbókinni í morgun.
Að skilja ekkert í látunum í fólki
Nei ágæta Þórdís Kolbrún, það er ekki við Viljann að sakast hér.
Þú sem iðnaðarráðherra hefur marglýst þeirri skoðun að það geti verið fýsilegt að selja raforku til útlanda gegnum sæstreng. Vandinn er bara að þú vilt helst ekki að um þá stefnu þína sé fjallað. Hugmyndin virðist vera að keyra málið áfram undir yfirborðinu, en segja út á við að ekkert sé að frétta.
Og eins og í orkupakkamálinu skilurðu bara ekkert í þessum látum í fólki og líkir viðbrögðunum við trúarbrögð.
Líklega áttarðu þig þá heldur ekki á því að það eru gamlir og dyggir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru hvað ósáttastir við slíka stefnu.
Það er heldur ekki Viljanum að kenna.