„Nei, aldrei þessu vant er SA ekki vondi kallinn“

Hugleiðingu dagsins á Friðrik Jónsson, fv. formaður BHM, sem fjallar um viðræðuslit Samtaka atvinnulífsins og svonefndrar breiðfylkingar í Karphúsinu í gær:

„Það að samningaviðræður meintrar breiðfylkingar og Samtaka atvinnulífsins séu farnar í skrúfuna eina ferðina enn þarf ekki að koma á óvart. Og nei, aldrei þessu vant er SA ekki vondi kallinn.

Frá upphafi vegferðar meintrar breiðfylkingar hefur legið fyrir að hún hefur gert það að forsendu samninga að múlbinda til aðgerða aðila sem eru ekki við þeirra samningsborð. Ríkið, önnur stéttarfélög og heildarsamtök, og síðast en ekki síst Seðlabanka Íslands. Það kann einfaldlega ekki góðri lukku að stýra.

Þegar til viðbótar gerðar eru forsendukröfur fyrir 4 ára samning sem eru þannig að samningurinn væri í eðli sínu skammtímasamningur með möguleika á framlengingu – og í þokkabót að forsendur fyrir framlengingunni – eða því að samningnum verði ekki sagt upp – að allir aðrir lúffi fyrir „alræði öreiganna“ – þá er tæpast verið að semja í góðri trú.

Í upphafi tilkynningar Eflingar frá í gær var komist svona að orði: „Félagsfólk Eflingar hefur ítrekað á umliðnum árum upplifað virðingarleysi gagnvart samningsrétti sínum, hagsmunum og tilveru.“ Vandi viðsemjenda Eflingar, og nú með þátttöku meðreiðarfólks þess í SGS, VR, o.fl. er einmitt þvert á móti virðingarleysi þeirra við hagsmuni annarra á íslenskum vinnumarkaði, bæði almennum og opinberum – sérstaklega launafólki með millitækjur og efri-millitekjur. Fólkið sem skapar hér mestu verðmætin, borgar mestu skattana, heldur uppi velferðinni og tekur minnst úr millifærslukerfunum. Fólkið sem leggur mest til þess félagslega samtryggingarkerfis sem við viljum treysta á. Krafa Eflingar og félaga er í hnotskurn að fá hækkun launa umfram alla aðra og ennþá meira úr þessum millifærslukerfum – en allir aðrir taki á sig beina kjararýrnun í formi lægri raunlauna og hærri skattbyrði. Sér er nú hver sáttin…!

Á endanum þarf samt að semja. Kannski er þá best í stöðunni að SA einbeiti sér að samningum við þau félög ASÍ sem ekki eru hluti af hinni meintu „breiðfylkingu“ og hið opinbera flýti samningum við stéttarfélög á opinberum markaði,“ segir Friðrik ennfremur.