Nú á fjármálaráðherrann næsta leik

Stólaleikur ráðherra Sjálfstæðisflokksins í síðustu viku er enn eitt dæmi þess að sjálfsmat forystufólks flokksins er á sömu leið og fylgistölur í könnunum. Til að undirstrika andleysið hafa þingmenn og ráðherrar flokksins undanfarið rætt það fjálglega að aðframkomin ríkisstjórnin sé ,,skárri með Sjálfstæðisflokknum en án.”

Vel kann að vera að trosnaður málflutningur valdaþreyttra stjórnmálamanna af því tagi sem hér að ofan er lýst skori tímabundin stig hjá svartsýnisrausurum í grasrót flokksins. En svona tala sigurvegarar ekki. Litlar líkur eru á að þingmenn flokksins sem líða áfram í slíku metnaðarleysi trekki að nýja kjósendur.

Og þótt fólkið í efsta lagi Sjálfstæðisflokksins sé orðið samdauna kerfisstjórninni sem það tilheyrir og telji að ekkert annað mynstur eða verklag við stjórn landsins komi til greina, þarf ef til vill að minna það sama fólk á að þarna úti er stór hópur borgaralega þenkjandi fólks sem ætti að aðhyllast stefnu Sjálfstæðisflokksins en gerir það ekki um þessar mundir.

Þar ættu þess vegna að liggja heilmikil sóknarfæri fyrir dugmikið fólk. Kallinn er bjartsýnismaður að eðlisfari. Þess vegna trúir hann ekki öðru en að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sjái þau pólítísku tækifæri sem í því felast að taka við stóli fjármálaráðherra nú. Næstu skref skipta máli. Það má eiginlega engan tíma missa. Þórdís Kolbrún er bæði klár og dugleg. Spurningin er hvort hún hafi metnaðinn til að vera sá fjármálaráðherra sem sýnir sjálfstæðisstefnuna ekki bara í orði, heldur á borði.

Verði þannig ekki bara skömminni skárri, heldur fjandi góð. Fjármálaráðherrann á næsta leik…