Nýja Samfylkingin vs. gamla Samfylkingin

Af og til heyrast brak og brestir innan úr herbúðum Samfylkingarinnar þessi misserin. Þetta eru að líkindum svokallaðir vaxtarverkir sem tengjast því að flokkurinn mælist með langmest fylgi allra stjórnmálaflokka og að umbreyting formannsins á flokknum er ekki án vandkvæða og að ekki eru allir viðhlæjendur hennar vinir.

Þetta vita allir sem starfa nálægt þinginu, þar hefur lengi verið augljóst að innan þingflokks Samfylkingarinnar óttast margir um stöðu sína. Kristrún Frostadóttir hefur takmarkaða trú á mörgum þingmanna flokksins og ætlar þeim lítið hlutverk í framtíðinni. Aðeins Jóhann Páll Jóhannsson er raunar líklegur til að skipa framtíðarsveit hennar, en Logi Einarsson fv. formaður mun reyndar einnig vera í náðinni. Aðrir eru á útleið, flóknara er það nú ekki.

Þess vegna þarf kannski fáum að koma á óvart að þegar borgaralegu öflin á þingi sameinuðust á dögunum um tilboð að veita Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki liðsstyrk gegn afturhaldinu í VG í virkjanamálum svo bregðast megi við orkukreppunni í landinu, skuli Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa komið upp í pontu og spurt hvort ekki ætti að kalla forsætisráðherrann heim úr því hægri flokkarnir væru í óða önn að mynda nýja ríkisstjórn.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Þórunn er algjörlega á VG-línunni í umhverfismálum og væri sama þótt ekki yrði virkjað fyrir einu megavatti í viðbót um ókomna tíð. En Kristrún er alls ekki á þeirri blaðsíðu, skárra væri það nú fyrir manneskju sem ætlar sér forsætisráðherrastólinn.

Þess vegna mætti Jóhann Páll fyrir hennar hönd á forsíðu Morgunblaðsins í vikunni og lýsti stuðningi við virkjanir og möguleg sérlög um nokkra kosti. Hann kom þar fram fyrir hönd nýju Samfylkingarinnar.

Gamla Samfylkingin gat ekki látið slíku útspili ósvarað. Þórunn var aftur mætt í Mogga dagsins og sakar Jóhann Pál um „frjálslega túlkun“ á stefnu Samfylkingarinnar. Hún haldi aftur á móti á „haldreipi“ í stefnu flokksins í umhverfis- og virkjanamálum sem sé „skýr“.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Ekki leikur á tveim tungum hver niðurstaðan verður á endanum. Nýja Samfylkingin mun hafa betur í þessum slag og breiðfylking sem ætlar sér að leiða næstu ríkisstjórn mun ekki setja sig upp á móti virkjunum til að afla grænnar orku.

Gamla Samfylkingin mun auðvitað ekki taka því þegjandi. En það er eins og það er. Fleiri munu fylgja dæmi Helgu Völu Helgadóttur; skynja sinn vitjunartíma og fara sjálfviljugir af vettvangi áður en langt um líður. Hinum verður hreinlega sparkað út…