Nýr kjarasamningur gæti leitt til aukinnar verðbólgu og gengissigs

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.

„Úr fjarlægð sýnist mér í fljótu bragði að kjarasamningur ASÍ, Eflingar og VR við SA muni leiða til aukinnar verðbólgu og gengissigs af fjórum ástæðum,“ segir dr. Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í færslu sem hann ritar á fésbókina um helgina: 

1) Sum fyrirtæki munu með gamla laginu velta auknum kaupkostnaði út í verðlagið frekar en að hagræða rekstri; 
2) Mörg fyrirtæki munu líkt og fyrr leggjast í lántökur ef vextir lækka, og auknum lántökum fylgja aukin umsvif og verðhækkanir; 
3) Aðgerðum ríkisins til að greiða fyrir samningunum fylgja útgjöld sem ýta undir eftirspurn og verðbólgu; 
4) Önnur launþegasamtök, t.d. BSRB og iðnaðarmenn, kunna að krefjast enn frekari kauphækkunar án þess að slaka á klónni í ljósi vonar um lækkun vaxta. 

Þorvaldur segir að þetta þurfi ekki að verða nein kollsteypa eins og t.d. 1977, „alls ekki, heldur bara verðbólga talsvert umfram markmið Seðlabankans í nokkur misseri eða ár — nema allt fari aftur í bál og brand. Kjararáð er ekki gleymt,“ bætir hann við.