Nýtur Svandís stuðnings samstarfsflokkanna?

Nú liggur það fyrir, sem flestir töldu borðleggjandi snemma sumars, að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi ekki haft nægilega skýar lagastoð fyrir setningu reglugerðar sem bannaði hvalveiðar með sólarhringsfyrirvara og að gæta hefði mátt betur að kröfum um meðalhóf. Álit Umboðsmanns Alþingis, sem birt var í dag, staðfestir þetta.

Svandís segir að ekki hafi verið hægt annað fyrir „ábyrgan ráðherra“ en að bregðast við á ögurstundu eftir að álit fagráðs um velferð dýra lá fyrir, en sagði að veiðiaðferð Hvals hf við veiðar á langreyðum væri ekki í samræmi við lög um dýravelferð.

„Velferð dýranna var í öndvegi í minni ákvarðanatöku, að vinna að því markmiði að þessi dýr upplifðu ekki óbærilegan dauðdaga við veiðar,“ segir ráðherrann á samfélagsmiðlum í dag og aftekur með öllu að hún hyggist segja af sér vegna málsins. Tekur raunar sérstaklega fram að málið sé eðlisólíkt því þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra í vetur vegna álits Umboðsmanns um söluna á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.

En er málið svo einfalt?

Viðmælendur Viljans segja ljóst að Svandís víki ekki sjálfviljug og hún muni njóta fulls stuðnings Vinstri grænna, sem þó hafi oft sett fram afarkosti gagnvart ráðherrum annarra flokka í ríkisstjórnarsamstarfinu, t.d. Sigríði Á. Andersen og Jóni Gunnarssyni.

Málið velti því á viðbrögðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Vitað var að stjórnarsamstarfið hefur hangið á bláþræði mánuðum saman og stemningin súrnað mjög síðustu vikur. Sagt er að ríkisstjórnin haldi dauðahaldi í völdin, valdanna vegna. Kjósendur hafa sýnt álit sitt á slíkum vinnubrögðum í könnunum og mótvindurinn sem allir stjórnarflokkarnir eru í, hefur ekki dulist neinum.

En Svandís braut lög og hún gerði það í samstarfi sem er á ábyrgð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Nú kemur í ljós úr hverju forystumenn þeirra flokka eru gerðir og jafnframt einstakir þingmenn. Ætla þeir að sætta sig við þetta? Er virkilega ekki komið nóg af slíkum fréttum af ríkisstjórninni?

Þingið kemur saman undir lok mánaðar og viðbúið er að Miðflokkurinn leggi fram tillögu á vantraust á ráðherrann þegar þar að kemur, hafi málið ekki haft afleiðingar fyrr. Næstu dagar verða því athyglisverðir í pólitíkinni og allt er í reynd upp í loft.