Öflugasta stjórnarandstaðan í borginni er rekin úr Svörtuloftum

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Það fylgja sumpart ansi ferskir vindar Ásgeiri Jónssyni sem hefur nú setið um skeið sem seðlabankastjóri. Hann er áberandi í fjölmiðlum og tjáir sig með eftirtektarverðum hætti, auk þess sem sögulegar færslur hans á fésbókinni eru með því betra sem finnst á internetinu um þessar mundir.

Málflutningur hans í húsnæðis- og skipulagsmálum hefur vakið einna mesta athygli, enda virðist öflugasta stjórnarandstaðan við meirihlutann í borginni nú koma úr Svörtuloftum við Kalkofnsveg. Seðlabankastjóri hefur ítrekað talað fyrir mikilvægi þess að flýta arðbærum samgöngubótum á borð við Sundabraut og fjölga nýbyggingarhverfum til þess að bregðast við skorti á húsnæði og verðbólunni sem fylgir möntru meirihlutans um þéttingu byggðar.

Hvort tveggja er eitur í beinum Samfylkingarinnar. Sá flokkur virðist gera allt til að koma í veg fyrir að Sundabraut verði að veruleika og kjörnir fulltrúar flokksins benda sífellt á aðra leiðir en þær sem stendur til að fara. Allt er það gert til að tefja málið og hefur gengið vel fram til þessa. Borgarstjórnarmeirihlutinn er vanur því að vefja samgönguráðherranum um fingur sér, hvort sem kemur að flugvallarmálum eða borgarlínu, og gera einfaldlega ráð fyrir að það verði hægt áfram. Engu skiptir þótt samkomulag um borgarlínuna sé háð því skilyrði að þegar verði ráðist í Sundabraut; borgarstjórnarmeirihlutinn er enn að rýna „aðrar lausnir og leiðir“ og því tefst málið. En keyrt er áfram með skrilljarðaáform um borgarlínuna eins og enginn sé morgundagurinn, enda þótt það fyrirbæri sé í reynd ekkert annað en strætó á sterum.

Svo er það þétting byggðar. Fátt er nú byggt nýtt í borginni nema á svokölluðum þéttingareitum. Þar er íbúðaverð í hæstu hæðum, enda kostar formúgu að kaupa land og byggingar til þess eins að rífa þær niður og byggja stórar blokkir í staðinn. Meira að segja byggingasamvinnufélagið Búseti varð að bjóða búseturétti á miklu hærri kjörum en áður í íbúðum kringum Þverholt og Háteigsveg af þessum sökum.

Ekkert er að því að þróa byggð með ýmsum hætti og sumstaðar hefur þétting byggðar heppnast giska vel. En ef hún er eina leiðin, mun húsnæðisverð áfram hækka í takti við byggingarkostnað og lóðaverð. Framboð er minna en eftirspurn og þá er ekki tekið tillit til þess að efnahagsuppgangur geti verið framundan með stórfjölgun á erlendu vinnuafli sem einhvers staðar þarf að búa. Svo ekki sé minnst á ferðamannaiðnaðinn og allar skammtímaleiguíbúðirnar sem hann þarfnast.

Hér áður fyrr gætti borgin þess að þróa líka ný hverfi og úthlutaði þar lóðum með ýmsu fyrirkomulagi á kostnaðarverði. Það er athyglisvert að jafnaðarmannaflokkurinn Samfylking skuli hafa komið á hreinu uppboðskerfi þar sem lögmál markaðarins ráða öllu. Þess vegna var hætt við að þróa Grafarholtið og Úlfarsárdalinn eins og áður stóð til og þess vegna bregst meirihlutinn illa við hugmyndum seðlabankastjóra um ný og ódýrari byggingarlönd upp með Sundunum meðfram nýrri Sundabraut.

Slík áform gætu nefnilega stefnt í voða öllum þéttingarreitunum sem eru í pípunum. Þar er allt byggt eins; eins margir fermetrar af steinsteypu upp í loft og frekast er unnt; allt virðist byggt eftir sömu teikningunni, háar blokkir og lítil græn svæði nema kannski á húsþökum. Hvenær ætli borgarbúar fái nóg af þessari einsleitni í skipulagsmálum og fleiri skemmtileg úthverfi á borð við Grafarvog, Seljahverfi og Grafarholt líti aftur dagsins ljós?