Ólga í Sjálfstæðisflokknum eftir breytingar á miðstjórn

Janus Arn Guðmundsson (t.v.) og Steinar Ingi Kolbeins koma nýir inn í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Tekist hefur verið á að tjaldabaki í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, undanfarna daga og mikil ólga er í flokknum eftir óvænt kjör á miðstjórnarfulltrúum úr Reykjavík, þar sem báðir sitjandi fulltrúar voru felldir í kosningu.

Almennt var ekki gert ráð fyrir átökum um sæti í miðstjórn flokksins, fyrr en tölvupóstur barst flokksmönnum á dögunum, þar sem auglýst var eftir framboðum til miðstjórnar. Tekið var fram, að kosning yrði skrifleg samkvæmt ákvörðun kjörstjórnar og allir félagar fulltrúaráðsins hefðu kosningarétt en allir sjálfstæðismenn í Reykjavík gætu boðið sig fram.

Fyrir hönd Reykjavíkurkjördæmanna hafa setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, þau Elsa Björk Valsdóttir skurðlæknir og Magnús Þór Gylfason viðskiptafræðingur. Þau gáfu bæði kost á sér áfram, en þeir Steinar Ingi Kolbeinsson aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis- og orkumálaráðherra og Janus Arn Guðmundsson stjórnmálafræðingur og fv. framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfsstæðisflokksins buðu sig óvænt fram.

Tölvupóstur um kosninguna var sendur á flokksmenn í Reykjavík þann 17. janúar sl., framboð áttu að berast í síðasta lagi mánudaginn 22. janúar sl. og kosning yrði í Valhöll dagana 24. og 25. janúar.

Niðurstaðan varð sú að þeir Janus Arn og Steinar Ingi hlutu kjör í miðstjórn. Elsa B. Valsdóttir og Magnús Þór Gylfason féllu þar með sem aðalmenn, en hlutu hins vegar kjör varamanna. Alls kusu 352. Gild atkvæði voru 351. Auðir og ógildir seðlar voru 1.

Sjálfstæðismenn, sem Viljinn hefur rætt við, segja ómaklegt að sjá tvo óumdeilda og virta sjálfstæðismenn fellda í kosningu með þessum hætti og atburðarásin verði einungis til að auka á deilur og flokkadrætti, þar sem megináherslan sé að valda tilteknar stöður og pósta innan flokksins. Sagt er að svokallaður Guðlaugsarmur flokksins, sem kenndur er við Guðlaug Þór Þórðarson, hafi með þessu styrkt stöðu sína í valdakerfinu, en valdið um leið mikilli óánægju í flokknum, svo mikilli að fyrr eða síðar muni sjóða uppúr.

Ljóst sé að atburðarás þessi hafi verið vel skipulögð og óvænt kosning átt sér stað, þegar fæstir áttu von á henni og voru þess vegna algjörlega óviðbúnir. „Menn voru algjörlega teknir í bólinu,“ segir viðmælandi Viljans sem vel þekkir til í Valhöll.