Óskiljanleg hatursumræða

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Hugleiðingu dagsins á Brynjar Níelsson, fyrrverandi alþingismaður, sem fjallar á fésbókinni um ásakanir um hatursorðræðu eða -umræðu í tengslum við námsefni um kynsegin fræði og kynfræðslu í skólum.

Brynjar skrifar:

„Öll þessi hatursumræða er að verða mér óskiljanleg. Hún er ekki ný af nálinni þótt hún sé áberandi nú um stundir. Í gamla Þjóðviljanum voru þeir sem gagnrýndu sósíalismann og fyrirheitnu ríkin í austri gjarnan sakaðir um hatursorðræðu. Sakaðir um lygi og ósannindi, í besta falli um missagnir eða upplýsingaóreiðu. Nú vitum við öll hver var fávitinn í þeirri sögu.

Eftir hrun sósíalismans urðu gamlir áskrifendur Þjóðviljans landlausir um tíma og þurftu því nýjan vettvang í aðför sinni að vestrænu lýðræði, atvinnufrelsinu og eignarréttinum. Tóku þeir yfir sem kallað er feminísk hugmyndafræði. Ég leyfði mér að gagnrýna þessa hugmyndafræði og taldi hana hafa lítið að gera með frelsi og réttindi kvenna og verið væri að færa þessa ömurlegu hugmyndafræði sósíalismans í nýjan búning. Umsvifalaust var ég sakaður um kvenhatur. Maður sem tiplar á tánum kringum Soffíu alla daga getur ekki hatað konur. Sama gerist gagnvart öllum sem voga sér að gagnrýna eitthvað af þessari hinsegin hugmyndafræði.

Nú er ég ekki í vafa um að einhverjir hafa andúð og jafnvel hata konur og hinsegin fólk. Ég veit um fólk sem hatar útgerðarmenn og jafnvel sjálfstæðismenn, eins blíðlyndir og góðir þeir eru. En menn mega ekki líta á alla gagnrýni sem hatur. Það gerir bara ofstækisfólk sem þolir ekki andstæðar skoðanir. Það ber enga virðingu fyrir tjáningarfrelsi annarra og veður bara áfram í frekjunni og hræðir aðra til hlýðni með ofbeldi og hótunum.“