Óskoraður framtíðarforingi Sjálfstæðisflokksins

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og orkumálaráðherra.

Eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins verður ekki annað sagt en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi stimplað sig inn sem óskoraður framtíðarforingi Sjálfstæðisflokksins. Að sama skapi náði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir einnig að styrkja stöðu sína verulega með vasklegri framgöngu, að ekki sé talað um magnaða velgengni Diljár Mistar Einarsdóttur og Hildar Sverrisdóttur.

Guðlaugur Þór sýndi enn og sannaði hve sterkar rætur hann á í grasrót flokksins. Enn og aftur var elítan innan flokksins ekki á hans bandi, en það skipti bara engu máli og hann hafði góðan sigur.

Áslaug Arna tefldi djarft, en kemur einnig út sem sigurvegari að mörgu leyti. Greinilegt er að reykvískum sjálfstæðismönnum líst vel á að stilla henni og Guðlaugi Þór upp sem oddvitum í sitthvoru kjördæminu og víst er að fjölmennt prófkjör gæti orðið drjúgt vegarnesti inn í kosningabaráttuna sem nú er að hefjast.

Á móti kemur að margir ganga sárir frá borði. Þingmenn á borð við Brynjar Níelsson, Sigríði Á. Andersen og Birgi Ármannsson áttu ekki upp á pallborðið og gætu flest ef ekki öll verið á leið út af þingi. Þá er ekki hægt að segja að einn helsti hugmyndafræðingur formannsins – og þar með flokksins – Friðjón Friðjónsson hafi fengið sterka kosningu. Á næstu dögum kemur í ljós hvort tekst að bera klæði á vopnin og koma samhentum flokki af stað í mikilvæga kosningabaráttu, eða hvort hinir ósáttu hætta í fússi og dúkka jafnvel upp annars staðar áður en langt um líður.

Annað eins hefur jú gerst í pólitíkinni.