Óstöðug ærð á vinnumarkaði – staðan greind

Nú í vikulokin verður mánuður liðinn frá því að skammtímasamningar þeir sem gerðir voru fyrir rúmu ári síðan runnu út. Meðan ekki hefur verið samið gilda hins vegar gömlu samningarnir og ekki fást neinar kjarabætur.

Lengi vel í þessari lotu áttu þau samleið verkalýðsforingjarnir sem mest ber yfirleitt á – Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og samhliða formaður Starfsgreinasambandins, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Sú samstaða er nú að baki og þegar styttist í lok viðræðna og óhjákvæmilega gerð samninga hefst „hefðbundinn leikþáttur“ þar sem formaður VR og formaður Eflingar hlaupa út undan sér með venjubundnum hótunum um verkföll og hádramatískar og stóryrtar yfirlýsingar um brot á trausti.

Hér skal fullyrt, að lítið búi annað að baki en hefðbundinn flótti frá ábyrgð. Nú er hins vegar að sjá hvort hinn öflugi verkalýðsleiðtogi Vilhjálmur Birgisson treysti sér eina ferðina enn til að taka af skarið og ganga frá kjarasamningi. Fyrir utan þakkir frá sínum umbjóðendum mun hann uppskera hefðbundinn brigsl um svik við málstaðinn og við „félaga“ sína í VR og Eflingu.

Þá eru og á kantinum þorri félaga iðnaðarmanna í ASÍ sem ekki hefur verið hluti af breiðfylkingunni svokölluðu, auk heildarsamtaka opinberra samtaka launafólks. Gengur sá hópur víst undir nafninu þverfylkingin í húsi sáttasemjara.

Hermt er að sú aðlögun launaliðar til iðnfélaganna sem leiddi til brothlaups formanns Eflingar hafi verið hækkun á prósentum launaliðarins á öðru til fjórða ári samnings upp á 0,25%. Það var nú allur glæpurinn. Fyrir utan hvað um litlar upphæðir var að ræða er athyglisvert að upphlaup formanns Eflingar af þessu tagi snúast nánast alltaf um að hún hafnar í reynd að önnur stéttarfélög hafi sjálfstætt samningsumboð. Þau skulu éta það sem Eflingu þóknast.

Svo er það lenska íslenskrar verkalýðshreyfingar, og eru formenn Eflingar og VR miklir forsprakkar í þeim efnum, að reka rýtinga í bakið á þeim sem fyrst semur. Flest öll koma leiðtogar stéttarfélaga í kjölfarið með innihaldslitlar og stoðlausar yfirlýsingar um að þau hefði sjálf geta samið betur og skilað meiri árangri. Jafnan er lítið haldbært að baki slíkum fullyrðingum. Kostnaðarsamt og undarlegt verkfall Eflingar á síðasta ári er skýrt dæmi um þetta, en átökin og töfin sem varð á því að Efling gengi frá samning skilaði félagsmönnum Eflingar nákvæmlega engum efnislegum ávinningu. Tölfræðilega er hægt að sýna fram að félagsfólk Eflingar hafi beinlínis tapað á þeim gerningi.

Annar vandi íslenskrar verkalýðshreyfingar er umboðsleysi hennar í krafti skylduaðildar. Þau ráða sem mæta, er meginregla lýðræðisins, hvort heldur sem er í almennum kosningum eða hjá frjálsum félagasamtökum. Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að gríðarlegt áhuga- og þátttökuleysi hrjáir íslenska verkalýðshreyfingu og stéttarfélög. Til þeirra streymir félagsfólk nauðugt viljugt og til forystu velst fólk mishæft með takmarkað lýðræðislegt umboð, en tekur sér gríðarlegt vald. Þegar við bætist að verkalýðsfélög hafa gríðarleg áhrif í gegnum mikla sjóðsöfnun bæði sjúkra- og styrktarsjóða, í gegnum lífeyrissjóði og fleira, má velta fyrir sér hvort ekki þurfi að renna styrkari stoðum undir þetta hliðar valdakerfi.

Eða skýtur það ekki skökku við að þríeykið Vilhjálmur, Ragnar Þór og Sólveig Anna, öll með í reynd takmarkaðra lýðræðislegt umboð en minnsti stjórnarmálaflokkur á Alþingi, geti stillt stjórnvöldum – ríkisstjórn og Alþingi – upp við vegg með kröfum tengdum kjarasamningum?

En staðan í húsi sáttasemjara er víst sú, að nánast eru kjarasamningar tilbúnir. Leikritið er að leggjast upp þannig að nú snýst þetta um hvorir taka af skarið verkalýðsmegin á almennum markaði Vilhjálmur Birgisson eða Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrrum formaður ASÍ og formaður Rafiðnarðarsambandsins, og skrifa undir kjarasamning við SA. Í kjölfarið fylgir væntanlega hinn, auk heildarsamtaka launafólks á opinberum markaði, samhliða því að kynntar verða aðgerðir stjórnvalda.

BSRB mun líkast til ríða á vaðið fyrir hönd opinberra starfsmanna með gerð samninga við ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin. Kennarasambandið mun fylgja í humátt á eftir, en meiri óvissa ríkir um BHM. Þar virðist sá agi og samstaða sem ríkti síðastliðinn vetur og skilaði háskólamenntuðum einum skásta árangri í skammtímasamningi árum saman hafa farið í súginn eftir formannsskiptin.

Þið lásuð þetta fyrst hér.